Forsíđa
Frćđslumiđstöđ Vestfjarđa
frmst@frmst.is
456-5025

Blogg á vef Frćđslumiđstöđvarinnar

Á vef Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða hefur verið bætt inn flipa fyrir blogg. Þar hyggst starfsfólkið segja frá einhverju af því sem það er að fást við og setja inn hugrenningar sínar um það er tengist starfinu. Blogginu er ekki ætlað koma í stað fréttaveitu miðstöðvarinnar. Þar verður áfram sagt frá því sem gert hefur verið og fyrirhugað er. Bloggið verður frjálsara. Þar getur fólk viðrað skoðanir sínar og velt upp sjónarmiðum og nýjungum.

Yfirmenn nota tímann til endurmenntunar

Spjallađ í kaffipásu
Spjallađ í kaffipásu
1 af 2

Skipstjórar, stýrimenn og vélstjórar á skipum Hraðfrystihússins Gunnvarar hf. Í Hnífsdal nota tímann í verkfalli undirmanna til endurmenntunar. Þeir og fyrirtækið leituðu til Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða um að skipuleggja nám fyrir hópinn. Undanfarnar tvær vikur hafa þeir verið í Fræðslumiðstöðinni og aukið færni sína í tölvum, samskiptum og mismunandi vinnustaða menningu auk fagtengdra þátta.

Karlarnir mæta oftast um kl. 10 og eru til kl. 17 og hafa þá verið við nám í 9 kennslustundir. Að þeirra sögn er þetta kærkomið tækifæri til endurmenntunar þó svo að þeir vildu frekar vera við veiðar. Starfsfólk Fræðslumiðstöðvarinnar er mjög ánægt að fá þessa góðu og áhugasömu nemendur í húsið og verða þeim að liði.

Fræðslumiðstöðin skipuleggur námið aðeins eina viku fram í tíman þar sem ekki er vitað hvenær samningar nást í sjómannaverkfallinu.

Árangurinn metinn og stefnumótun

Alþýðusamband Íslands tók höndum saman við Samtök atvinnulífsins upp úr síðustu aldamótum um að auka menntun félagsmanna sinna. Til að annast verkefnið stofnuðu samningsaðilar einkahlutafélag sem þeir nefndu Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Tók miðstöðin til starfa síðla árs 2002. Í upphafi þurfti að mörgu að hyggja og vinna umtalsvert þróunarstarf. Segja má að þeim fasa hafi lokið með setningu laga um framhaldsfræðslu árið 2010.

Þegar Fræðslumiðstöð atvinnulífsins tók til starfa voru komnar fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar um allt land. Fræðslumiðstöðin snéri sér því strax til þessara miðstöðva til að sjá um framkvæmdina. Fljótlega óx framhaldsfræðslan þannig að hún er nú viðamesti hluti í starfsemi flestra eða allra miðstöðvanna. Opinberir starfsmenn voru á undan félögum í ASÍ að skipuleggja fræðslu fyrir sína félagsmenn og settu því upp miðlæga símenntunarmiðstöð til að sinna landinu öllu, enda var það fyrir daga símenntunarmiðstöðvanna út um landið.

Innan framhaldsfræðslunnar hefur einkum verið lögð áhersla á þrennt. Það eru sérstakar námsleiðir sem oft eru kallaðar vottaðar námsleiðir, náms- og starfsráðgjöf og raunfærnimat. Á þetta allt er komin um 10 ára reynsla. Nú er því tímabært að staldra við, skoða hvað hefur áunnist og leggja drög að næstu framtíð. Þess vegna eru allir þeir sem að framhaldsfræðslunni standa í miklum stefnumótunarhugleiðingum þessi árin. Það á t.d. við um Fræðslumiðstöð Vestfjarða sem og Kvasi, sem eru samtök fræðslu og símenntunarmiðstöðva.

Auk framhaldsfræðslunnar býður Fræðslumiðstöð Vestfjarða tómstunda- og endurmenntunarnámskeið, sem kallast hjá miðstöðinni einu nafni almenn námskeið. Þá er miðstöðin með réttindanám svo sem skipstjórn og vélgæslu, íslensku fyrir útlendinga og fræðslugreiningu í fyrirtækjum og stofnunum.

Helstu spurningar sem við hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða veltum fyrir okkur núna eru:

  • Hver verður helsti vettvangur Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða næstu 5 – 10 árin?
  • Hvernig þróast framhaldsfræðslan?
  • Hverju breytir tæknin?
  • Koma einkaaðilar í auknum mæli að menntun fullorðinna?
  • Fer menntunin meira inn í fyrirtækin og stofnanir?
  • Verður áherslan á sérhæfða menntun sem gagnast fyrirtækinu hér og nú, eða verður áfram lögð áhersla á almenna menntun?
  • Hvernig verður fjárhagslegur grundvöllur Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða tryggður?

Hvaða áherslur verða lagðar hjá Fræðslumiðstöðinni á næstu árum ræðst af því hvernig við svörum þessum spurningum.

Litiđ um öxl

Aðalfundur Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða var haldinn samhliða 61. Fjórðungsþingi miðvikudaginn 4. maí 2016.

Í ræðu sinni fór forstöðumaður meðal annars yfir hvað hefur breyst hjá Fræðslumiðstöðinni á þeim tæpum 17 áum sem hún hefur starfað.

Helstu þáttaskil í aðstöðu miðstöðvarinnar á tímabilinu hafa verið þessi. Árið 2000 var skrifstofa miðstöðvarinnar í Þróunarsetrinu að Árnagötu 2-4 í svokölluðu Vestrahúsi og fór kennslan einkum fram þar og í Menntaskólanum. Árið 2002 flutti Fræðslumiðstöðin með alla sína starfsemi að Eyrargötu 2-4 á Ísafirði og var þar til ársins 2006 þegar Háskólasetur Vestfjarða tók til starfa. Þá flutti miðstöðin aftur niður í Vestrahúsið og leigði húsnæði af Háskólasetrinu. Inngangur í húsið var þó annar en áður og heimilisfangið því Suðurgata 12 í stað Árnagötu 2-4. Jafnframt tók Háskólasetrið að sér þjónustu við háskólanema, en hún hafði áður verið hjá Fræðslumiðstöðinni. Árið 2008 flutti miðstöðin á neðri hæðina að Suðurgötu 12 og á sama ári voru ráðnir fastir starfsmenn á Hólmavík og Patreksfirði en áður höfðu þar verið starfandi tengiliðir.

Í ytra umhverfi hafa þessar breytingar orðið helstar. Uppúr aldamótunum samþykktu aðilar vinnumarkaðarins að stórefla menntun þeirra sem stystu skólagöngu höfðu og sömdu við ríkið um að veita fé til þeirra mála. Ári 2002 stofnuðu þessir aðilar Fræðslumiðstöð atvinnulífsins til að þróa menntunarúrræði fyrir þennan markhóp. Árangur þessa var að á árunum 2005 til 2006 hófst hin svokallaða framhaldsfræðsla og var fræðslu- og símenntunarmiðstöðvunum falin framkvæmd hennar undir leiðsögn Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins. Árið 2010 voru svo sett lög um framhaldsfræðslu, sem festu í sessi það fyrirkomulag sem þá var komið. Helstu verkefni framhaldsfræðslunnar eru kennsla á vottuðum námsleiðum sem jafngilda framhaldsskólanámi, náms- og starfsráðgjöf og raunfærnimat.

Frá aldamótum hafa orðið miklar breytingar í menntamálum þjóðarinnar. Sett hafa verið lög um öll skólastig, framhaldsskólinn hefur verið styttur og námsmati breytt, sem og mæling á námi. Nám hefur verið þrepaskipt og unnið er að frekari þrepaskiptingu á starfshæfni. Vilji er til að meta þekkingu og reynslu til móts við skólanám og hefur þar náðst verulegur árangur með hinu svokallaða raunfærnimati. Við þetta bætist svo áframhaldandi þróun tækninnar. Þegar svo margar breytingar eru í ganga samtímis getur orðið erfitt að meta árangur hverrar þeirra fyrir sig, þegar fólk fer að líta um öxl eftir nokkur ár.

Raunfćrni

Hvernig öðlast fólk þá færni sem það býr yfir? Hvað af henni hefur fólk lært í skólum og hvað í lífinu utan skóla? Við þessum spurningum eru ekki einhlít svör. Svörin verða líka mismunandi eftir einstaklingum og þeirri kunnáttu sem fólk hefur. Eitt er þó víst. Öll erum við einhver summa af eðli okkar og því sem við höfum lært.

Stundum hefur verið núningur á milli þeirra sem getað flaggað prófskírteinum og hinna sem hafa þekkingu og reynslu úr starfi. Hafa þeir síðarnefndu gjarnan gert lítið úr verksviti hinna. Oft hefur verið kvartað undan því, að við val á fólki til starfa sé einungis horft á prófgráður, en ekki tekið mið af þeirri færni sem viðkomandi hefur. Stafar það bæði af því að erfitt hefur verið að meta færni sem fólk hefur aflað sér með óformlegum hætti og eins hinu að þeir sem prófgráðurnar hafa standa vörð um hagsmuni sína.

Á síðustu árum hefur tvennt verið að þróast sem ætti að gera auðveldara að meta nám utan fræðslustofnana. Er það annars vegar svokallaður hæfnirammi um menntun og hins vegar raunfærnimat.

Með hæfnirammanum er menntun á Íslandi skipt í 7 þrep, þar sem 1. og 2. þrepið er nám í framhaldsskólastigi, 3. þrepið er stúdentspróf eða sveinspróf og þrjú síðustu þrepin eru háskólagráðurnar, bakkalár, master og doktor. Fjórðaþrepið er svo nám á þarna á milli. Á hverju þrepi er tilgreind sú hæfni sem viðkomandi á að búa yfir.

Með raunfærnimati er reynt að meta þá færni sem viðkomandi hefur, óháð því hvernig hann hefur öðlast hana. Raunfærnimatið fer eftir ákveðnu ferli sem á að tryggja sanngjarna og réttmæta niðurstöðu. Það er mun áreiðanlegra en óformlegt mat sem stundum hefur verið beitt í skólakerfinu og líkist fremur stöðuprófum, en á þó að gefa réttari mynd. Raunfærnimat hefur verið þróað í mörgum starfstengdum greinum og sífellt bætast við fleiri greinar. Hingað til hefur það aðallega gagnast fólki til að stytta nám sitt.

Með hæfnirammanum og raunfærnimati er innleidd ný hugsun í mati á mannauði. Í stað þess að fólk framvísi prófskírteinum leggur það fram staðfestingar á því á hvaða hæfniþrepi það er á ákveðnum sviðum. Með raunfærnimati á fólk svo að geta fengið hæfni sína metna á réttmátann og áreiðanlegan hátt.

Frekari upplýsingar um íslenska hæfniramman er að finna hér og um raunfærnimat hér.

Menntamenning

Mikið og gott námsframboð er ekki nægilegt til að allir fari í nám. Það þarf líka að koma náminu á framfæri og hvetja fólk. Oftast er fólk með lengri skólagöngu tilbúnara til að hefja nám en þeir sem hafa verið styttra í skóla. Þess vegna er mun meira námsframboð fyrir langskólagengið fólk en hina. Það er auðveldra að ná í það.

Til að fá fólk í nám þarf að það finna tilgang með náminu. Fyrsta spurning hjá fólki er oft hvort námið leiði til launahækkana. Næsta spurning er svo oft hvort námið nýtist fólki í starfi. Þriðja spurning er svo hvort námið þorski fólk og efli.

Það er ekki nóg að fá fólk í nám. Það þarf líka að haldast í náminu. Til þess þarf fólk að njóta sín. Það þarf að takast á við mátulega krefjandi verkefni og námið verður að vera ánægjulegt. Þessu til viðbótar þarf fólk að vita hvaða skyldur það tekur á sig með því að innritast í nám og hvað það þarf að leggja á sig. Fólk þarf að finna að það hefur ekki einungis skyldur við sjálfan sig heldur einnig við samnemendur sína. Þegar fólk fer í nám getur verið að það þurfi forgangsráða verkefnum sínum öðruvísi en áður.

Þótt enginn geti lært fyrir annan, heldur þurfi hver og einn að læra fyrir sig, er nám engu að síður félagsleg athöfn að vissu leyti. Það hjálpar fólki í námi að vinna að verkefnum með öðrum, fólk fær hvatningu frá samnemendum og fær skýrari sýn á viðfangsefnin með því að ræða þau við aðra. Að ekki sé talað um félagsskapinn, en vellíðan fólks og ánægja er lykilatriði í námi. Þá getur stundum þurft alla þá sem skrá sig til að námskeið verði haldið. Vegna alls þessa tekur hver manneskja á sig skyldur við að skrá sig í nám.

Viðhorf til náms og hve framarlega við setjum það í forgangsröðina má kalla menntamenningu.
Eitt af hlutverkum Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða er að auka menntamenningu á Vestfjörðum.

Sóknaráćtlun og menntun

Nú tíðkast að gera sóknaráætlanir fyrir einstaka landshluta. Fundað var um eina slíka í dag. Hún kallast Sóknaráætlun fyrir Vestfirði 2015 – 2019 og er unnin af Fjórðungssambandi Vestfirðinga.

Eins og annars staðar á landsbyggðinni er menntunarstig lágt á Vestfjöðrum; jafnvel með því lægsta á landinu. Við því á einkum að bregðast í Sóknaráætluninni með því að styrkja háskólastigið og fjölga háskólamenntuðu fólki.

Auk háskólamenntunar er í Sóknaráætluninni örlítið fjallað um leik og grunnskóla. Framhaldsskólar og fullorðinsfræðsla eru mjög lítið nefnd. Það er eins og skýrsluhöfundar hafi alls ekki heyrt minnst á framhaldsfræðslu. Framhaldsskólinn og framhaldsfræðslan eru þó þau menntastig sem helst þyrfti að efla ef menntunarstigið er svona lágt. Auðvitað myndi menntunarstigið hækka með innflutningi á háskólafólki en það myndi lítið hjálpa þeim sem fyrir eru. Aukið framboð á háskólanámi myndi líka lítið hjálpa þeim. Sá sem flosnaði uppúr grunnskóla eða framhaldsskóla hefur lítið að gera námsframboð á háskólastigi.

Áhugaleysið fyrir framhaldsskóla og fullorðinsfræðslu, sem lesa má út úr Sóknaráætluninni, hlýtur að skrifast á okkur sem störfum á þessum skólastigum. Við þurfum að taka okkur á og kynna það sem við erum að gera og ekki síst að halda þeim upplýstum sem í fararbroddi standa.

Ađgangur ađ menntun og lífsgćđin

Hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða er nú að hefjast 17. starfsárið. Miðstöðin hefur ekki starfað lengi sé miðað við veraldarsöguna, en þó hafa orðið miklar tækni- og samfélagsbreytingar á starfstíma hennar. Þessar breytingar gera það að verkum að fólk þarf sífellt að laga sig að nýjum aðstæðum. Þeir sem lærðu til ákveðinna starfa á unga aldri þurfa að endurnýja og bæta við þekkingu sína og þeir sem fóru út á vinnumarkaðinn eftir stutta skólagöngu koma nú inn í menntastofnanirnar. Símenntun er lausnarorð nútímans.

Aðgangur að námi er stór hluti af lífsgæðum fólks á öllum aldri. Það er eitt af því sem ræður hvar fólk kýs að búa. Fræðslumiðstöð Vestfjarða leggur sig fram um að veita fólki alls staðar á Vestfjörðum aðgang að fjölbreyttu og góðu nám á hagstæðu verði. Miðstöðin leggur líka mikið uppúr góðri kennsluaðstöðu þar sem fólki finnst gott að koma og því líður vel.

Gott námsframboð er ekki nægilegt til að fá alla í nám. Það þarf að koma náminu á framfæri og hvetja fólk til náms. Það er megin hlutverk Fræðslumiðstöðvarinnar.

Til hefja nám þarf fólk finna tilgang með því. Þegar fólk íhugar nám er fyrsta spurning gjarnan hvort það hækki í launum. Næsta spurning er svo hvort námið nýtist fólki í starfi. Þriðja stigið sem fólk fer á er svo þegar það finnur að námið þroskar það og eflir. Þegar fólk er komið á það sig vill það oftast halda áfram námi.

Stöndum vörđ um ţađ sem viđ höfum

Gamalt máltæki segir: Engin veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Það er mikið til í þessu. Við lítum t.d. oftast á stofnanir í samfélagi okkar sem sjálfsagðar og að þegar þær hafi tekið til starfa þurfi ekki meira um þær að hugsa. Stjórnmálamenn, jafnt í héraði sem á landsvísu, lofa fólki gjarnan nýjum stofnunum verði þeir kosnir og á hátíðisdögum eru opnaðar einmenningsstofnanir út um landið. Á sama tíma getur stofnunum sem fyrir er verið að blæða út, þannig að þar tapist fleiri störf en skapast við hinar nýju stofnanir. Þess vegna væri oft mikilvægara að efla það sem fyrir er en að stofna nýtt. Vandinn við það er hins vegar sá að það vekur minni athygli og skaffar því færri atkvæði.

Stjórnmálamenn þurfa að veita því sem fyrir er meiri athygli og hlú betur að því. Það þurfum við líka öll að gera. Við þurfum að hlúa að því sem við höfum; standa vörð um stofnanirnar okkar, láta fyrirtækin njóta viðskiptanna og sækja viðburði sem boðið er uppá. Stjórnmálamenn þurfa að hafa frumkvæði að því að marka stefnu um uppbyggingu og rekstur opinberra stofnana í samfélaginu. Þannig nýtist fjármagnið best, en dreifist ekki tilviljunarkennt í allar áttir.

Eftir að hafa sett þessar hugsanir á blað, þakka ég enn frekar fyrir þann stuðning sem ég finn við Fræðslumiðstöð Vestfjarða. Það hvetur okkur til að gera enn betur.

Vetrarstarfiđ ađ byrja

Hjá Fræðslumiðstöð Vestfjar er nú verið að skipuleggja námsframboðið í vetur og undirbúa útgáfu námsvísis.

Á undanförnum árum hefur áherslan aukist á hina svokölluðu framhaldsfræðslu, þ.e. vottaðar námsleiðir, náms- og starfsráðgjöf og raunfærnimat. Einnig hefur réttindanám innan sjódeildarinnar verið í sókn. Áherslan á tómstundanámskeið hefur að sama skapi verið að dragast hlutfallslega saman. Fræðslumiðstöðin mun engu að síður bjóða allmörg tómstundanámskeið nú í vetur. Þá er fólk hvatt til að koma hugmyndum um nám á framfæri við okkur enda viljum við hafa fjölbreytt úrval náms í boði.

Af nýjungum sem nú er unnið að má nefna kennslu á leikskólaliða- og stuðningsfulltrúabrúm, sem kenndar verða í samstarfi við Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar (SÍMEY) og Farskólann á Norðurlandi vestra. Þeir sem ljúka því námi hljóta starfsheitin leikskólaliði og stuðningsfulltrúi. Fleiri þróunarverkefni verða kynnt síðar.

Eldri fćrslur