Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Góður gangur í íslenskunámi

Nemendur á námskeiði í íslensku á Bíldudal.
Nemendur á námskeiði í íslensku á Bíldudal.

Það hefur verið góð aðsókn að námskeiðum í íslensku fyrir útlendinga hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða það sem af er þessu haust. Íslenskan er kennd samkvæmt námsskrá frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu og er skipt á fjögur stig þar sem gert er ráð fyrir 60 kennslustundum á hverju stigi. Fræðslumiðstöðin hefur farið þá leið að skipta hverju stigi á tvö námskeið, 30 kennslustundir hvort.

Á Patreksfirði er þegar búið eitt námskeið á stigi 3 og nú er farið á stað seinna námskeiðið á því stigi. Þar er einnig á döfinni námskeið fyrir byrjendur, eða á stigi 1.  Á Tálknafirði var svokallaður Landnemaskóli kenndur í október, en það er 120 kennslustunda nám með áherslu á íslensku og íslenskt samfélag. Landnemskólinn er ætlaður fólki sem hefur náð nokkrum tökum á málinu. Á Bíldudal hefur Þörungaverksmiðjan boðið sínu starfsfólki á íslenskunámskeið og hefur það þegar lokið stigi eitt og eru nú komin á námskeið fyrir lengra komna.

Á Ísafirði fóru af stað bæði byrjendanámskeið og námskeið á stigi 2. Flestir byrjendurnir hafa svo haldið áfram og eru nú komnir á seinna námskeið til að klára 1. stig. Nú er einnig að fara af stað námskeið á stigi 3. Þá má geta þess að í Súðavík er að fara af stað Landnemaskóli.

Það er því óhætt að segja að góður gangur sé í íslenskukennsku þetta haustið og gaman að sjá hversu margir hafa áhuga á að bæta kunnáttu sína og færni í íslensku.    

Deila