Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Norðvestur verkefnið heldur áfram

Stapinn stendur allt af sér.
Stapinn stendur allt af sér.

Verkefnið um hækkun menntunarstigs í Norðvestur kjördæmi er nú að fara af stað að nýju.

Símenntunarmiðstöðvarnar í kjördæminu og Háskólinn á Bifröst hafa gengið frá samkomulagi um framkvæmd nokkurra verkþátta í verkefninu.

Verkefnið hófst á síðast liðnu ári, en nokkur óvissa var umframhald þess. Þeirri óvissu var eytt með samningi menntamálaráðherra við Háskólanum á Bifröst fimmtudaginn 5. febrúar s.l. Þar var Háskólanum falið að fara með framkvæmd verksins og því tryggð fjármögnun. Verkefnið nær til eins árs og skal ljúka í janúar 2015.

Meginmarkmið verkefnisins er að efla ráðgjöf til fyrirtækja um nám á vinnustað, auka samstarf atvinnulífs og fræðsluaðila í kjördæminu um starfstengt nám, fjölga einstaklingum sem ljúka iðnnámi og efla íslenskukunnáttu innflytjenda. Verkefnið er liður í átaki til þess að hækka menntunarstig í íslensku atvinnulífi og eitt af nokkrum verkefnum sem sett voru af stað í framhaldi af kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins í maí 2011. Samskonar tilraunaverkefni var sett í gang í Breiðholti í fyrra.

Sigurborg Þorkelsdóttir mun stýra verkefninu hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða, en samræming á kjördæmavísu er á höndum Geirlaugar Jóhannsdóttur hjá Háskólanum á Bifröst.

Gagnvart mennta- og menningarmálaráðuneyti ber Háskólinn á Bifröst ber ábyrgð á verkefninu en framkvæmd þess verður unnin í náinni samvinnu við símenntunarmiðstöðvar og framhaldsskóla í kjördæminu. Norðvesturkjördæmi er einstaklega auðugt af öflugum fræðslustofnunum en þar eru m.a. starfandi þrjár símenntunarmiðstöðvar, fimm framhaldsskólar og þrír háskólar auk háskólasetra.

Menntunarstig í kjördæminu er umtalsvert lægra en á landsvísu skv. vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands. Hlutfall íbúa í kjördæminu á aldrinum 16-74 ára sem aðeins hafa lokið grunnmenntun er 48% en 37% á landsvísu. 32% hafa lokið starfs- og framhaldsnámi úr framhaldsskólum sem er þremur prósentustigum lægra en á landsvísu. 20% íbúa í kjördæminu hafa lokið háskólanámi en til samanburðar er hlutfallið 27% á landsvísu.

Samningur ráðuneytisins við Háskólann á Bifröst hljóðar upp á rúmar 80 milljónir og veitir einstakt tækifæri til að auka menntun íbúa í kjördæminu og efla fræðslu á vinnustöðum. Í verkefninu eru sett skýr árangursmarkmið og stefnt að því að fjölga fyrirtækjum í kjördæminu um 120 sem bjóða upp á starfstengt nám, styðja 60 einstaklinga til að fara í raunfærnimat og áframhaldi nám í kjölfarið, m.a. í iðngreinum, og fjölga innflytjendum sem geta haldið uppi samræðum á íslensku um fjórðung. Til að ná þessum markmiðum verður varið um 40 milljónum í að efla svokallaðan fræðsluerindrekstur á vegum símenntunarmiðstöðvanna sem felur í sér markvissa kynningu á námsframboði og ráðgjöf við að klæðskerasauma nám. Fyrirtæki, stofnanir og einstaklingar sem vilja taka þátt í átakinu geta snúið sér til símenntunarmiðstöðva eftir ráðgjöf um starfstengd námskeið og raunfærnimat. Um 30 milljónum verður varið í að greiða götu þeirra einstaklinga sem vilja fara í raunfærnimat en fram til þessa hefur fremur lítið verið um raunfærnimatsverkefni í kjördæminu. Raunfærnimati er ætlað að meta þá færni og þekkingu sem starfsfólk hefur öðlast í starfi og frítíma. Það getur mögulega stytt skólagöngu fólks og þannig haft hvetjandi áhrif á fólk til að hefja nám að nýju. Ýmsum öðrum verkefnum verður ýtt úr vör sem öll hafa það að markmiði að hækka menntunarstig og efla samstarf fræðsluaðila í kjördæminu.

Áherslurnar í verkefninu byggja á ítarlegri greiningu á þörfum atvinnurekenda og starfsmanna fyrir nám. Sú greining var framkvæmd á síðasta ári með umfangsmikilli viðtalsrannsókn og spurningakönnunum á meðal íbúa í kjördæminu. Niðurstöður leiddu m.a. í ljós mikinn skort á iðn- og tæknimenntuðu fólki og þörf fyrir sérsniðin starfstengd námskeið, m.a. í sjávarútvegi og þjónustugreinum. Mikill áhugi kom einnig fram fyrir að efla þekkingu á viðskiptagreinum og tölvunotkun.

Tekin voru viðtöl við ríflega 800 starfsmenn og stjórnendur í fyrirtækjum og stofnunum vítt og breytt um kjördæmið. Í viðtölum við 425 starfsmenn kom fram mikill áhugi á að bæta við sig námi í hinum ýmsu greinum. Aðeins 37 viðmælendur höfðu ekki áhuga á að bæta við sig menntun. Algengast er að fólk nefni tölvunám, viðskipta- og bókhaldsnám, iðnnám og nám tengt opinberri þjónustu (þroskaþjálfanám, sjúkraliðanám, kennsluréttindanám o.fl.).

Í viðtölum við 243 stjórnendur kom fram að flestir stjórnendur telja þörf fyrir iðn- og tæknimenntað starfsfólk, sérhæfð starfstengd námskeið, viðskiptamenntun, tölvuþekkingu, nám tengt sjávarútvegi, matvælum og tungumálanám.

Stjórnendur voru almennt mjög jákvæðir fyrir því að taka þátt í að auka menntun starfsfólks með ýmsum hætti, s.s. með því að bjóða upp á nám á vinnutíma, taka þátt í kostnaði við nám og veita starfsfólki aukið svigrúm til náms. Þannig sögðu 65% svarenda í könnun á meðal stjórnenda að fyrirtækið væri tilbúið að fjárfesta í aukinni menntun starfsfólks og 83% svöruðu því til að fyrirtækið komi til móts við starfsfólk sem vill auka menntun sína.

Í símakönnun meðal íbúa í Norðvesturkjördæmi sem byggði á þjóðskrárúrtaki kom fram að 61% sögðu að vinnuveitandi væri tilbúinn að koma til móts við sig ef þau vilja hefja nám og 45% sögðu að vinnuveitandi hvetji þau til náms. 77% svarenda sögðu að sérsniðið nám á vinnustað myndi nýtast vel í starfi í dag. 47% höfðu hætt í námi án þess að ljúka því að fullu. Áhugaleysi og námsleiði var algengasta ástæða þess að fólk hætti í námi en 40% svarenda nefna þá ástæðu, 18% nefndu fjölskylduaðstæður og 8% fjárhagslegar skuldbindingar. Fjórðungur svarenda sögðust hafa haft áform um flutning frá sveitarfélaginu síðastliðin 5 ár.

Í viðtölum við um 100 pólska innflytjendur kom fram að meirihluti viðmælenda hafði mikinn áhuga á að sækja námskeið í íslensku en einnig kom fram mikill áhugi á enskunámi, verknámi og viðskiptatengdu námi. Meirihluti viðmælenda hugðist ekki flytja úr kjördæminu á næstu 5 árum. Stærsti hluti viðmælenda hafði lokið iðnmenntun eða 36%, 23% höfðu lokið framhaldsskóla, 16% voru með tæknimenntun, 15% háskóla en 10% höfðu aðeins lokið grunnskóla. Menntunarstig viðmælenda úr hópi innflytjenda var því hærra en menntunarstig allra íbúa í kjördæminu skv. tölum Hagstofu.

Deila