Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Stríð gegn hryðjuverkum í brennidepli

Haustönn 2019.

Í fyrirlestrinum verður hið svokallaða stríð gegn hryðjuverkum í brennidepli. Fjallað verður um þróun þess frá árinu 2001 til dagsins í dag. Það er tímabilið allt frá því að George W. Bush lýsti því formlega yfir, í kjölfar hinna hörmulegu hryðjuverkaárása á Bandaríkin árið 2001, fram til valdatíðar Donalds Trump, sem virðist ætla að stýra því í nýjar og enn hættulegri áttir. Orsakir og afleiðingar þessa flókna, ill skilgreinda og langvarandi stríðs verða raktar þar sem allur heimurinn er orrustuvöllurinn og alþjóðalög ná illa yfir. Að auki verður fjallað um hinar ýmsu og óvæntu birtingarmyndir og ruglingslegar sviftingar sem hafa átt sér stað á tímabilinu. Ber þar hæst þegar Al Kaida samtökin og álíka hópar urðu skyndilega að helstu bandamönnum Bandaríkjanna í baráttunni við enn þá verri öfgaöfl, þ.e. ISIS (Daish) eins og raun bar vitni í Sýrlandsstríðinu. Loks verður spáð í framtíðina nú þegar háttsettir erindrekar ríkisstjórnar Trumps eru komnir á kreik á nýjan leik til að afla stuðnings við nýjan fasa hryðjuverkastríðsins sem snýr gegn Íran að þessu sinni.

Fyrirlesari er Guðrún Margrét Guðmundsdóttir mannfræðingur. Undanfarið ár hefur hún unnið sem túlkur og menningarmiðlari við móttöku flóttafólks á norðanverðum Vestfjörðum. Hún hefur tekið þátt í fjölmiðlaumræðu um málefni Miðausturlanda, þ.á.m. átökunum í Sýrlandi, Írak og Jemen, auðlinda- og yfirráðapólitík (geo-politics), kvenréttindabaráttu svæðisins einkum við Arabíuflóa og íslamskan femínisma og íslamófóbíu. Guðrún Margrét bjó við Arabíuflóa og Jemen á árunum 1985–1995 og einnig dvalið þar langdvölum sl. 10 ár, m.a. við rannsóknir. Einnig starfaði hún hjá íslensku friðargæslunni hjá Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna í Kairó á síðasta ári.

Tími: Haldið á haustönn 2019.
Lengd: 2 klukkustundir (1 skipti).
Staður: Fræðslumiðstöð Vestfjarða, Suðurgötu 12, Ísafirði. Fjarkennt til Hólmavíkur og Patreksfjarðar.
Verð: 8.000 kr.

SKRÁNING Á NÁMSKEIÐ