Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Skipulagsskrá Fræðslumiðstöðar Vestfjarða

Skipulagsskrá svo samþykkt á aðalfundi fulltrúaráðs Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða mánudaginn 22. maí 2006.


1. gr.
Fræðslumiðstöð Vestfjarða er sjálfseignarstofnun með sérstaka stjórn. Heimili og varnarþing er á Ísafirði. Stofnunin ber ábyrgð á skuldbindingum sínum ásamt eignum. Stofnunin er ekki háð neinum lögaðilum.

2. gr.
Stofnendur Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða verða þeir sem því til staðfestingar undirrita þessa stofnskrá.

3. gr.
Stofnendur leggja fram sameiginlega 500 þúsund króna stofnframlag til Fræðslumiðstöðvarinnar, sem skal vera óskerðanlegur höfuðstóll og ávaxtað með tryggilegum hætti. Fjárhagslegar skuldbindingar miðstöðvarinnar umfram stofnframlag eru stofnendum óviðkomandi.

4. gr.
Markmið Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða er að efla menntun á Vestfjörðum og þá einkum að standa fyrir fræðslustarfsemi sem ekki heyrir undir námskrárbundið nám á grunn- og framhaldsskólastigi, nema sérstaklega verði um það samið. Í þessu sambandi skulu þarfir atvinnulífs og íbúa sérstaklega hafðar í huga. Lögð skal áhersla á að sem flestir íbúar Vestfjarða hafi aðgang að þjónustu Fræðslumiðstöðvarinnar óháð búsetu. Fræðslumiðstöðin hafi ennfremur forgöngu um fjarkennslu á sem flestum sviðum.

5. gr.
Við Fræðslumiðstöðina skal starfrækja fulltrúaráð, skipað einum fulltrúa frá hverjum stofnanda og einum til vara. Fulltrúaráðið er æðsta stjórn miðstöðvarinnar. Hlutverk þess er að ákveða meginþætti í stefnu og starfstilhögun Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða.

6. gr.
Fulltrúaráðið skipar 5 manna stjórn Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða til tveggja ára í senn og skal stjórnin þannig skipuð: Þrír aðalfulltrúar og þrír til vara kosnir á aðalfundi fulltrúaráðs. Einn aðalfulltrúi og einn til vara tilnefndur af skólanefnd Menntaskólans á Ísafirði. Formaður fulltrúaráðs á sjálfkrafa setu í stjórn og er varaformaður fulltrúaráðs varamaður hans. Stjórnin skiptir með sér verkum.

7. gr.
Stjórn Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða ber að vinna að markmiðum miðstöðvarinnar og koma fram fyrir hennar hönd gagnvart þeim sem veita henni fjárhagslegan stuðning. Stjórnin ber ábyrgð á rekstri, fjárhag og eignum miðstöðvarinnar. Stjórnin ákveður meginþætti í stefnu og starfstilhögun miðstöðvarinnar og setur sér og henni starfsreglur.


8. gr.
Stjórn Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða ræður framkvæmdastjóra sem annast daglegan rekstur og setur honum erindisbréf. Framkvæmdastjóri ber ábyrgð gagnvart stjórn miðstöðvarinnar. Hann undirbýr fjárhagsáætlun, vinnur að fjáröflun, annast reikningsskil og ræður annað starfsfólk.

9. gr.
Tekjur Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða auk vaxta af stofnframlagi eru frjáls framlög frá ríki og sveitarfélögum, tekjur af þjónustu auk frjálsra framlaga frá einstaklingum, fyrirtækjum og samtökum og annars aflafjár. Tekjum og eignum Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða má einvörðungu verja í samræmi við markmið stofnunarinnar.

10. gr.
Reikningsár Fræðslumiðstöðvarinnar er frá 1. janúar til 31. desember. Reikningar miðstöðvarinnar skulu endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda. Senda skal endurskoðaða reikninga til Ríkisendurskoðunar að loknum aðalfundi. Um reikningshald fer að lögum nr. 19/1988 um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá.

11. gr.
Aðalfundur fulltrúaráðs Fræðslumiðstöðvarinnar skal fara fram ár hvert í mars og boðar formaður fulltrúaráðsins til fundarins með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara. Á aðalfund skal boða aðalmenn og varamenn, og hafa þeir síðarnefndu málfrelsi og tillögurétt. Með fundarboði aðalfundar skal senda áritaða reikninga. Dagskrá aðalfundar skal vera þannig: 1. Skýrsla stjórnar. 2. Afgreiðsla reikninga. 3. Breytingar á reglum miðstöðvarinnar.
4. Kosning formanns og varaformanns fulltrúaráðs. 5. Kosning stjórnar og löggilts endurskoðenda. 6. Starfsáætlun næsta árs. 7. Önnur mál.

12. gr.
Skipulagsskrá Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða verður aðeins breytt á aðalfundi. Tillögur um breytingar þurfa að berast stjórn fyrir miðjan febrúarmánuð ár hvert. Senda skal breytingartillögur út með fundarboði aðalfundar. Tillögur skoðast samþykktar ef 2/3 hlutar atkvæðisbærra manna samþykkja. Starfsemi miðstöðvarinnar verður einungis hætt ef aðalfundur samþykkir það með 2/3 hlutum atkvæða. Verði starfsemin lögð niður renna eignir hennar til eflingar endurmenntunar og símenntunar á Vestfjörðum. Leita skal staðfestingar dómsmálaráðherra á skipulagsskrá þessari, og breytingar á henni skulu einnig hljóta staðfestingu sama ráðherra.