Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Árý Hinriksson fagnar doktorsgráðu

Árý á tali við Peter Weiss forstöðumann Háskólaseturs Vestfjarða.
Árý á tali við Peter Weiss forstöðumann Háskólaseturs Vestfjarða.
1 af 2

Árný Aurangasri Hinriksson, eða Árý eins og við Ísfirðingar þekkjum hana, varði doktorsritgerð sína við Háskóla Íslands föstudaginn 14. nóvember s.l. Árý hélt uppá þetta í dag með samsæti hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða. Með boðinu vildi Árý þakka öllum þeim sem lagt hafa henni lið í doktorsnáminu og fagna þessum merka áfanga með vinum og vandamönnum. Við hjá Fræðslumiðstöðinni færum Árý innilegar hamingjuóskir með nafnbótina og gleðjumst yfir að hún skuli velja miðstöðina fyrir þennan fagnað. Við erum stolt af henni og þakklát fyrir að geta orðið henni að liði. Með doktorsgráðu sinni hefur Árý sannarlega hækkað menntunarstigið á svæðinu.

Í upphafi samsætisins var dr. Chelva Kanaganayakam minnst með einnar mínútu þögn. Dr. Kanaganayakam var annar andmælandinn við doktorsvörnina og vinur Arý. Hann lést snögglega fyrir fáeinum dögum.

Doktorsritgerð sína nefnir Árý Dissident Voices: Sociocultural Transformations in Sri Lankan Post-Independence Novels in English (Andófs raddir: Skáldsögur á ensku um félags- og menningarlegar umbyltingar í sjálfstæðu Sri Lanka).

Andmælendur við doktorsvörnina voru dr. Chelva Kanaganayakam, prófessor við Háskólann í Toronto í Kanada og dr. Hartmut Lutz, emeríti við Háskólann í Greifswald, Þýskalandi. Dr. Guðrún Björk Guðsteinsdóttir, prófessor í enskum bókmenntum við Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda, var aðalleiðbeinandi doktorsverkefnisins en í doktorsnefnd sátu auk hennar dr. Walter Perera, prófessor við University of Peradeniya, Sri Lanka, og dr. Martin Regal dósent við Háskóla Íslands. Dr. Hólmfríður Garðarsdóttir prófessor og forseti Deildar erlendra tungumála stjórnaði athöfninni sem fór fram í Hátíðasal Háskóla Íslands.

Sjá nánar á vef Háskóla Íslands.

Deila