Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Betri samgöngur auka möguleika á samstarfi símenntunarmiðstöðva

Bættar samgöngur milli Stranda og Vesturlands hafa aukið mjög möguleika símenntunarmiðstöðva á samstarfi um námskeiðahald og jafnframt aukið möguleika íbúa á að sækja námskeið á milli svæða.

Um þessar mundir er verið að kenna síðasta hluta af þremur á fagnámskeiði fyrir starfsmenn í heilbrigðis- og félagsþjónustu. Kennt er í Tjarnarlundi í Dölum, auk þess sem ein kennslulota fer fram í Búðardal og ein á Reykhólum. Koma þátttakendur frá Hólmavík, úr Reykhólasveit og víðsvegar úr Dölum. Tjarnarlundur er mjög miðsvæðis fyrir þessi sveitarfélög og gefa bættar samgöngur milli sveitarfélaganna á síðustu árum tækifæri til aukinnar samvinnu af þessu tagi.

Stefnt er að því að fagnámskeiðinu ljúki rétt fyrir páska. Þátttakendur eru tíu og stefna nokkrir þeirra á að hefja nám á sjúkraliðabrú að námskeiðinu loknu. Fagnámskeiðin eru alls 198 stundur og því góður grunnur fyrir áframhaldandi nám, auk þess sem heimilt er að meta þau til eininga í framhaldsskóla.

Fagnámskeiðið í Dölum hófst síðast liðinn vetur og var þá á vegum Símenntunarmiðstöðvar Vesturlands. Annar hlutinn var svo kenndur á haustönn og sá þá Símenntunarmiðstöðin um rekstur námskeiðsins en réði Kristínu Einarsdóttur verkefnastjóra Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða á Hólmavík til að hafa umsjón með því. Á þessari önn færðist svo rekstur námskeiðsins yfir til Fræðslumiðstöðvarinnar. Samvinna af þessu tagi milli símenntunarmiðstöðvanna hefur færst í vöxt og er það vel.
Deila