Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Dagur gegn einelti

Verkefnisstjórn í aðgerðum gegn einelti hefur ákveðið að standa fyrir degi gegn einelti 8. nóvember 2011. Verkefnisstjórnin samanstendur af fulltrúum fjármálaráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis og velferðarráðuneytis og er hún skipuð í kjölfarið á útgáfu Greinargerðar um mögulegar aðgerðir gegn einelti í skólum og á vinnustöðum sem kom út í júní 2010.

Í tilefni dagsins verður undirritaður þjóðarsáttmáli um baráttu gegn einelti. Forsætisráðherra er verndari átaksins og munu velferðarráðherra, fjármálaráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra undirrita sáttmálann fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Ennfremur eru fjöldi félaga og samtaka aðilar að samningnum.

Í tilefni dagsins vill Fræðslumiðstöðin bjóða upp á fyrirlestur þar sem fjallað verður um einelti út frá sögu og siðferði. Sr. Fjölnir Ásbjörnsson, sóknarprestur í Holti, Önundarfirði, mun taka fyrir í fyrirlestri sínum hugleiðingar guðfræðings um einelti með hliðsjón af Biblíunni og kristinni siðfræði. Skoðaðar verða skilgreiningar á einelti og leitað fanga í fornum sem nýjum heimildum, meðal annars með viðkomu í Þýskalandi nasismans og sovéska Gúlaginu.

Fyrirlesturinn er öllum opinn og án gjalds. Hefst hann kl. 17 og er um klukkustund. Vonumst við til þess að sjá sem flesta.
Deila