Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Fjölbreytilegar matsaðferðir í fullorðinsfræðslu - námskeið í ágúst

Undanfarin ár hefur Fræðslumiðstöð Vestfjarða reynt að bjóða kennurum sínum og öðrum sem hafa áhuga á fullorðinsfræðslu upp á að minnsta kosti eitt námskeið á ári með það að markmiði að auka þekkingu á námi, kennsluháttum og þeirri hugmyndafræði sem unnið er eftir í fullorðinsfræðslunni. Fimmtudaginn 18. ágúst stendur Fræðslumiðstöðin fyrir námskeiði um námsmat í fullorðinsfræðslu. Námskeiðið er frítt og öllum opið, en nauðsynlegt er að skrá sig.

Á námskeiðinu verður rætt um hverju við stöndum frammi fyrir í framhaldsfræðslunni hvað varðar námsmat, þ.e. hvernig getum við tryggt að hugmyndafræði fullorðinsfræðslunnar og starfsfræðslu sé virt þegar matsaðferðir eru valdar? Hvernig getum við stuðlað að því að þær matsaðferðir sem valdar eru njóti trausts hagsmunaaðila s.s. vinnumarkaðarins og viðtökuskóla. Hvaða aðferðir getum við notað sem uppfylla ofangreint en eru einnig framkvæmanlegar á hagkvæman hátt (tími/fjármagn).

Þessum spurningum verður varla svarað til fullnustu en sameiginlega ættu þátttakendur á námskeiðinu að nálgast lausnir. Leiðbeinandi leggur fram dæmi um matsaðferðir og það gera þátttakendur líka. Seinni hluti námskeiðsins er n.k. vinnustofa þar sem þátttakendur vinna saman að því að finna matsaðferðir sem henta í þeirra eigin kennslu.

Kennari á námskeiðinu er Guðmunda Kristinsdóttir hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA), en FA hefur þróað ýmis námskeið sem fjalla um nám og kennslu fullorðinna. Námskeiðið fer fram í húsakynnum Fræðslumiðstöðvar Vestfjarðam, Suðurgötu 12, Ísfirði og er 7 kennslustundir, kennt frá kl. 9:30 til 15:00.

Fræðslumiðstöðin hvetur alla þá sem koma að kennslu fullorðinna og aðra sem hafa áhuga á fullorðinsfræðslu til að nota þetta tækifæri til að auka við þekkingu sína og deila reynslu sinni með öðrum.

image
Frá námskeiði fyrir kennara í fullorðinsfræðslu í ágúst 2008.
Deila