Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Fjölbreytt úrval námskeiða í febrúar

Frá vélgæslunámskeiði vorið 2012.
Frá vélgæslunámskeiði vorið 2012.

Í febrúar eru fjölbreytt úrval námskeiða hjá Fræðslumiðstöðinni og ættu flestir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Mánudaginn 10. febrúar er eitt af hinum vinsælu FabLab námskeiðum og að þessu sinni verður laserskurður tekinn fyrir.

Þriðjudaginn 11. febrúar er auglýst vefnaðarnámskeið og er það ánægjulegt að geta boðið upp á slíkt námskeið þar sem vefnaður er ekki víða kenndur. Sama dag, þriðjudaginn 11. febrúar er fyrirhugað að hefja námskeið í þýsku fyrir fólk með grunn í málinu. Þetta er upplagt fyrir þá sem til dæmis starfa innan ferðaþjónustunnar eða aðra sem vilja þjálfun í að nota þýsku.

Miðvikudaginn 12. febrúar fer af stað námskeið í pólsku fyrir byrjendur. Þetta er tilvalið námskeið fyrir þá sem eiga samskipti við pólskumælandi fólk, vinnuveitendur, starfsfólk opinberra stofnana og þjónustufyrirtækja og aðra áhugasama.

Sama dag hefst einnig námskeið í almennri skyndihjálp sem Rauði krossinn heldur í samstarfi við Fræðslumiðstöðina. Mælt er með því að allir taki skyndihjálparnámskeið á tveggja ára fresti því kunnátta á því sviði getur skilið á milli lífs og dauða.

Lágkolvetnamataræði hefur mikið verið í tísku undanfarna mánuði og margir sem hafa áhuga á því. Sunnudaginn 16. febrúar verður námskeið þar sem slíkur matur verður kynntur og matreiddur.

Þeir sem hafa fengið sér nýja tölvu á síðustu mánuðum hafa flestir orðið varir við miklar breytingar þegar kveikt er á vélinni og Windows 8 stýrikerfið fer í gang. Þriðjudaginn 18. febrúar er tækifæri til þess að kynnast þessu kerfi og helstu breytingum frá því sem áður var.

Frá stofnun Fræðslumiðstöðvarinnar hefur á hverju ári verið boðið upp á vélgæslunámskeið í samvinnu við Guðmund Einarsson og hafa þau ávalt notið vinsælda. Námskeið þessa vetrar hefst laugardaginn 22. febrúar.

Síðasta námskeið febrúarmánaðar sem búið er að auglýsa er svo Grunnnám skólaliða sem hefst mánudaginn 24. febrúar. Eins og heitið gefur til kynna er það ætlað þeim sem sinna störfum skólaliða í grunnskólum en getur einnig nýst þeim sem líta eftir börnum á leikskólum.

Deila