Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Fræðslumiðstöðin fær góða gjöf

Fyrir skömmu fékk Fræðslumiðstöð Vestfjarða gjöf þegar Guðmundur Sigurðsson afhenti Guðbirni Páli Sölvasyni, umsjónarmanni sjódeildar hjá Fræðslumiðstöðinni, tvo björgunarflotgalla. Einhver kann að spyrja hvað í ósköpunum Fræðslumiðstöð hafi að gera með slíkan galla en því er auðsvarað. Á hverju ári er boðið upp á smáskipanám hjá miðstöðinni og þeir sem það sækja ætla sér flestir að stunda sjóinn á einn eða annan hátt, annað hvort í atvinnuskyni eða sér til skemmtunar. Í smáskipanáminu er meðal annars farið yfir öryggisreglur og öryggisbúnað og er mikill fengur í því að geta ekki bara sagt frá flotgöllum heldur líka leyft nemendum að prófa að fara í slíkan galla.

Þess má geta að nú í vetur eru þrír hópar í smáskipanámi hjá miðstöðinni. Sú nýbreytni var tekin upp í vetur að vera í samstarfi við Grunnskóla Bolungarvíkur og Grunnskólann á Ísafirði um að bjóða elstu nemendunum að taka smáskipanám sem hluta af vali. Þetta hefur mælst vel fyrir og eru alls rúmlega 30 nemendur í þessu námi í Bolungarvík og á Ísafirði. Auk þess er hópur fullorðinna í kvöldnámi á Ísafirði eins og verið hefur mörg undanfarin ár.

Fræðslumiðstöðin kann Guðmundi bestu þakkir fyrir þetta framlag hans.

Deila