Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Fyrsta námskeið nýs skólaárs

Fyrsta námskeið skólaársins 2011-2012 var haldið fimmtudaginn 18. ágúst s.l. Þá sat starfsfólk Fræðslumiðstöðvarinnar ásamt nokkrum af kennurum hjá miðstöðinni á námskeiði sem fjallaði um matsaðferðir í framhaldsfræðslu. Námskeiðið var liður í reglulegri endurmenntun starfsfólks og kennara en Fræðslumiðstöðin reynir að bjóða þeim sem hafa áhuga á fullorðinsfræðslu upp á að minnsta kosti eitt námskeið á ári með það að markmiði að auka þekkingu á námi, kennsluháttum og þeirri hugmyndafræði sem unnið er eftir í fullorðinsfræðslunni.

Kennari á námskeiðinu var Guðmunda Kristinsdóttir sem starfar hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA). Mikið af lengra námi hjá FRMST er kennt samkvæmt námsskrám frá FA en þar er lögð rík áhersla á að leggja ekki fyrir hefðbundin próf til þess að kanna árangur. Á námskeiðinu var megin áherslan á hvers konar aðferðir er hægt að nota til þess að meta framvindu náms og árangur námsmanna án þess að vera með próf. Miklar og góðar umræður sköpuðust og vonandi voru þátttakendur margs vísari í lok dags.
Deila