Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Haustfundur símenntunarstöðva á Akureyri

Tæplega hundrað manns sóttu fund verkefnastjóra og náms- og starfsráðgjafa símenntunarmiðstöðva sem fór fram á Akureyri 27. og 28. september hjá SÍMEY.

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og SÍMENNT, samtök fræðslu- og símenntunarmiðstöðva, stóðu sameiginlega að fundinum sem bæði var staðbundinn og fór fram í gegnum fjarfundarbúnað. Fræðslumiðstöð Vestfjarða átti þrjá fulltrúa á fundinum en gestir fundarins voru frá öllum þeim ellefu símenntunarmiðstöðvum sem tilheyra SÍMENNT, sem og frá Starfsmennt, Iðunni og Rafmennt ásamt Fræðslumiðstöð atvinnulífsins.

Í upphafi fundarins tilkynnti formaður SÍMENNTAR, Sólveig Hildur Björnsdóttir framkvæmdastjóri Mímis, um nafnabreytingu á samtökum fræðslu- og símenntunarmiðstöðva, áður KVASIR, sem samþykkt var samhljóða á nýafstöðnum aðalfundi samtakanna. Leitað var til fjölmargra um álit og tillögur að nýju nafni, og var niðurstaðan um val á nafninu SÍMENNT afgerandi.

Leiðarstef fundarins var samtal og samvinna innbyrðis enda er mikil gróska og nýsköpun hjá miðstöðvum í framhaldsfræðslunni. Tólf erindi fóru fram í fjórum vinnustofum þar á meðal erindi um fjölbreyttar kennsluaðferðir í framhaldsfræðslu og verkfæri við miðlun náms, áskoranir og tækifæri í markaðs- og kynningarmálum, samstarf miðstöðva við vinnustaði um framhaldsfræðslu og þróun rafrænnar ráðgjafar. Þá voru einnig erindi um starfstengda íslenskukennslu, samstarf um virkniúrræði, þarfagreiningar fyrir fræðslu á vinnustöðum, nám fatlaðs fólks, sem og fjölmenningu og þjónustu við flóttamenn. Auk þessa fóru fram kynningar á fagbréfi atvinnulífsins og tengingu jákvæðrar sálfræði við framhaldsfræðslu.

 

Deila