Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Heimsókn Grænlendinga til Ísafjarðar 1925 - sýning í Fræðslumiðstöðinni

Síðla í ágúst 1925 lagðist danska skipið Gustav Holm að Ísafjarðarbryggju en um borð voru 89 Grænlendingar auk danskrar áhafnar á leið norður til Scorebysunds, nánar tiltekið til Ittoqqortoormiit til að stofna þar nýlendu. Aðstæður til veiða voru taldar með besta móti við þennan lengsta fjörð heims en fyrst og fremst var verið að tryggja dönsk yfirráð á svæðinu og koma í veg fyrir landnám Norðmanna sem gerðu kröfu um yfirráð á stórum hluta Austur-Grænlands.

Í Fræðslumiðstöð Vestfjarða við Suðurgötu 12 á Ísafirði hefur verið sett upp sýning um þessa heimsókn Grænlendinganna til Ísafjarðar og er hún opin kl. 9 - 16 virka daga.

Heimskautafarið Gustav Holm kom frá Ammassalik til Ísafjarðar til að taka þar vistir en jafnframt þurfti að vígja prestinn sem þjónusta skyldi sóknarbörn hinnar nýju nýlendu. Heimsóknin varði í þrjá og hálfan sólarhring og naut hluti Grænlendinganna gestrisni heimamanna en hinir fátækustu í hópnum fengu ekki að fara frá borði. Nokkur undirbúningur hafði átt sér stað þegar fréttist af komu skipsins til Ísafjarðar og lögðu bæjarbúar sig fram um að taka sem best á móti hinum útlendum gestum og má segja að heimsóknin hafi orðið til að auka skilning á milli þjóðanna tveggja. Eftir þriggja daga viðkomu á Ísafirði voru landfestar leystar og skipið sigldi norður á bóginn, til Ittoqqortoormiit, nyrstu byggðar Austur-Grænlands. Lífið þar átti eftir að reynast mörgum hinna nýju íbúa erfitt en það er önnur saga. Nú búa í bænum Ittoqqortoormiit um 400 manns, flestir afkomendur þeirra sem komu til Ísafjarðar fyrir 92 árum.

Sýningin er samstarfsverkefni námsbrautar í hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands, Safnahússins á Ísafirði, Byggðasafns Vestfjarða og Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða.

 

 

 

 

 

 

Deila