Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Íslenska og fjölmenningarsamfélagið - ráðstefna á Ísafirði

Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra og Matthías Páll Imsland, aðstoðarmaður ráðherra funduðu með aðilum sem tengdust ráðstefnunni.
Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra og Matthías Páll Imsland, aðstoðarmaður ráðherra funduðu með aðilum sem tengdust ráðstefnunni.

Íslenskunám og fjölmenningarsamfélagið var viðfangsefni fróðlegrar ráðstefnu sem haldin var í Edinborgarhúsinu á Ísafirði, miðvikudaginn 8. október, á vegum tilraunaverkefnanna Menntun núna í Norðvesturkjördæmi og í Breiðholti og í samvinnu við Fjölmenningarsetur.  Áherslan var á íslenskunám og ólíkar kennsluaðferðir sem þróaðar hafa verið á undanförnum árum ásamt því að kynna áhrifaríkar aðferðir til að auka þátttöku innflytjenda í samfélaginu en þar gegnir tungumálið einmitt lykilhlutverki. Ráðstefnuna sóttu tæplega 50 þátttakendur. Aðstandendur ráðstefnunnar hittu félagsmálaráðherra á Ísafirði í dag og ræddu um ráðstefnurnar og stefnu stjórnvalda í málefnum innflytjenda.

Á morgun, föstudaginn 10. október verður framhaldsráðstefna í Gerðubergi í Breiðholti þar sem m.a. menntamálaráðherra og innanríkisráðherra munu flytja erindi auk formanns Innflytjendaráðs og  Fjölmenningaráðs Reykjavíkurborgar, fulltrúa hverfisráðs og leikskóla. Mirela Protopapa frá Albaníu greinir frá hennar reynslu af því að flytja til Íslands og fjallað verður um áhersluatriði frá ráðstefnunni á Ísafirði. Óskar Dýrmundur Ólafsson, hverfisstjóri Breiðholts,  stýrir ráðstefnunni sem er öllum opin og hefst kl. 13 í Gerðubergi.

Íslenskuþorpið er dæmi um nýstárleg leið í tungumálanámi sem Guðlaug Stella Brynjólfsdóttir kynnti á ráðstefnunni á Ísafirði. Íslenskuþorpið myndar brú úr kennslustofunni yfir í þátttöku í samfélaginu þannig að nemendur sinna daglegum erindum sínum eins og að fara á bókasafn, í bakarí, í sundlaugar og þjálfa íslenskuna um leið. Markmiðið er m.a. að flýta fyrir frekara námi og þátttöku á íslensku í samfélaginu.  Dr. Guðrún Theodórsdóttir er hugmyndasmiðurinn að íslenskuþorpinu og var doktorsrannsókn hennar nýtt til að hanna marvisst og sérsniðið námsumhverfi innan raunverulegra fyrirtækja og stofnana úti í samfélaginu. Unnið er að leiðbeiningum um hvernig setja megi tungumálaþorp á fót annars staðar. Frekari þorpsvæðing er fyrirhuguð í framtíðinni ef fjármagn fæst til verkefnisins.

Á Flateyri var gerð tilraun með íslenskukennsla í gegnum leiklist árið 2011 í tengslum við uppsetningu á leikritinu sköllótta söngkonan eftir Eugene Ionesco. Leiklistin býr yfir leiðum til að efla tjáningarfærni fólks og rjúfa félagslega einangrun sem margir innflytjendur búa við. Leikrit hvetur til samvinnu þar sem allir kraftar fá að njóta sín og árangurinn er sýnilegur. 

Kristín R. Vilhjálmsdóttir, verkefnastjóri fjölmenningar hjá Borgarbóksafni Reykjavíkur, kynnti hin ýmsu fjölmenningarlegu ævintýri Borgarbókasafns. Heilahristingur er eitt verkefna Borgarbókasafns Reykjavíkur sem snýr að heimanámsaðstoð sem fram fer á Kringlusafni og Gerðubergssafni í samvinnu við sjálfboðaliða Reykjavíkurdeildar Rauða krossins. Menningarmót í leik-, grunn- og framhaldsskólum undir yfirskriftinni Fljúgandi teppi er þverfagleg kennsluaðferð sem er hugsuð til að varpa ljósi á mismunandi menningarheima nemenda. Ýmis önnur verkefni safnsins voru kynnt eins og Söguhringur kvenna kom að hönnun nýrra umbúða fyrir Kaffitár.

Markmið fjölmenningarlegra verkefna Borgarbókasafnsins eru að stuðla að gagnkvæmri félagslegri aðlögun, skilningi og virðingu, skapa vettvang fyrir menningar – og tungumálamiðlun,  auka færni innflytjenda í íslensku, efla tengsl milli allra Reykvíkinga, skapa vettvang fyrir miðlun þekkingar um alla hópa samfélagsins, að bókasafnsheimsókn verði mikilvægur þáttur í daglegu lífi innflytjenda, rjúfa einangrun og efla samhygð með náunganum.

Helga Björt Möller, verkefnastjóri hjá Dalvíkurbyggð, kynnti söguskjóðuna sem byggir á hollenskri aðferðafræði. Söguskjóðan er foreldratengt verkefni á leikskólum með áherslu á þátttöku erlenda foreldra og málörvun barna. Markmiðin með söguskjóðunum er einkum að efla samstarf og samskipti við foreldra, styðja við að foreldrar með ólíkan bakgrunn kynnist og upplifi eitthvað sameiginlegt, styðja við íslenskukunnáttu erlendu foreldranna, stuðla að víðsýni og vinna gegn fordómum. Aðdragandi verkefnisins er sá að hjá Dalvíkurbyggð er fjölgun barna af erlendum uppruna í skólum sveitarfélagsins á síðustu árum. Söguskjóðan hefur stuðlað að aukinni þátttöku foreldra af erlendum uppruna í leikskólastarfinu . 

Nýleg rannsókn á vegum Fjölmenningarsetursins sýnir aðeins 12% innflytjenda telja sig  tala góða íslensku. 88 meta kunnáttu sína lakari. Aðeins 25% innflytjenda telja sig hafa starf við hæfi. 75% segjast ekki vera í starfi sem hæfir menntun og reynslu.  Flestir svara því til að ónæg íslenskukunnátta ástæðan fyrir því að þau eru ekki í starfi sem hæfir þeirra menntun og reynslu.  76% svarenda telja  skort á íslenskukunnáttu vera ástæður langtímaatvinnuleysi. Skort á enskukunnáttu nefna 18%, 26% nefna fordóma og 21% nefna erlent nafn.  Þessar tölur sýna berlega hversu mikilvægt er að veita innflytjendum lykilinn að tungumálinu með öllum tiltækum ráðum.

Deila