Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Kynning á Grunnmenntaskóla

Fimmtudaginn 26. janúar kl. 18:00 verður opinn kynningarfundur hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða á námsskrá sem nefnist Grunnmenntaskólinn. Allir velkomnir og heitt á könnunni!

Grunnmenntaskólinn er 300 kennslustunda nám sem skipt er á þrjár annir. Námið hentar vel þeim sem hafa litla formlega menntun eða hafa ekki verið í námi lengi en vilja komast af stað.
Þeir þættir sem teknir eru fyrir í Grunnmenntaskólanum eru sjálfstyrking og samskipti, námstækni, íslensk, framsögn og ræðumennska, enska, stærðfræði, tölvu- og upplýsingatækni, þjónusta, náms- og starfsráðgjöf og gerð færnimöppu.

Fræðslumiðstöðin hefur nokkrum sinnum boðið upp á þetta nám, á Ísafirði, Þingeyri, Hólmavík og nú síðast á Patreksfirði, en hópurinn þar er um það bil að ljúka námi. Margir þeirra sem sótt hafa Grunnmenntaskóla hafa í framhaldinu farið í meira nám, bæði hjá Fræðslumiðstöðinni og í almenna skólakerfinu.

Grunnmenntaskólinn er ein þeirra námsleiða sem Fræðslumiðstöðin hefur litið á sem nokkurskonar annað tækifæri til náms. Fátt lýsir því betur en nokkrar línur sem einn fyrrum nemandi setti á blað um sína upplifun:
Ég hafði ekki setið á skólabekk í ca. 36 -37 ár þegar mér bauðst af sérstökum ástæðum, að fara í Grunnmenntaskólann hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða vorið 2008.

Það var með hálfum huga sem ég fór af stað, kvíðin eins og smákrakki og eiginlega alveg viss um að þetta væri eitthvað sem allir gætu, nema ég. En ég lét ekki kvíðahnútinn stjórna heldur skellti mér í námið sem samanstóð af ensku, dönsku, stærðfræði, íslensku, tölvunámi ofl. ofl. Og viti menn, ég gat bara lært þetta alltsaman, meira segja á tölvuna sem ég hafði varla nokkurn tíma snert á og var eiginlega hrædd við.

Það sem mér finnst þó merkilegast var hvað þetta var óskaplega gaman. Ég get ekki lýst því hvað ég var stolt og ánægð þegar verkefnin kláruðust hvert af öðru, með miklum myndarbrag.

Ég vil hvetja alla, alveg sama hversu langt er frá fyrri skólagöngu, ef þeir mögulega eiga kost á , að setjast aftur á skólabekk í lengri eða skemmri tíma og bæta við þekkingu og reynslu. Ég held að ég sé bara rétt að byrja, því síðast en ekki síst: Þetta er svo ofboðslega gaman og góður félagsskapur.


Nemendur í grunnmenntaskólanum fyrir nokkrum árum.
Deila