Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Kynning á námsleiðum FA - annað tækifæri til náms

Þriðjudaginn 25. september kl. 20:00 verður haldinn kynningarfundur á námsleiðum FA sem Fræðslumiðstöðin kennir í vetur á Ísafirði. Námsleiðirnar eru stundum kallaðar annað tækifæri til náms en þær eru ætlaðar fullorðnu fólki á vinnumarkaði sem ekki hefur lokið framhaldsskólanámi. Undan farin ár hafa margir hafa nýtt sér þessar námsleiðir til þess að eflast á vinnumarkaði eða komast aftur af stað í námi.

Nú í haust stendur til að fara af stað með nokkrar námsleiðir ef þátttaka fæst. Þær eru grunnmenntaskóli, nám og þjálfun í almennum bóklegum greinum, fagnámskeið fyrir starfsmenn í heilbrigðis- og félagsþjónustu, smiðja í handverki og hönnun og grunnnámskeið fyrir fiskvinnslufólk.

Kynningarfundurinn verður haldinn í húsakynnum Fræðslumiðstöðvarinnar að Suðurgötu 12 á Ísafirði. Fræðslumiðstöðin hvetur fólk til þess að koma og kynna sér hvort þetta gæti verið tækifæri til náms.
Nánar um námsskrárnar sem í boði eru á haustönn 2012 á Ísafirði.

Grunnmenntaskólinn er 300 kennslustunda nám sem skipt er á þrjár annir. Námið hentar vel þeim sem hafa litla formlega menntun eða hafa ekki verið í námi lengi en vilja komast af stað. Meðal námsþátta eru íslenska, enska, stærðfræði, námstækni og tölvu? og upplýsingatækni. Til greina kemur að kenna grunnmenntaskólann að degi til frekar en utan vinnutíma, en það mun ráðast af óskum þátttakenda.

Nám og þjálfun í almennum bóklegum greinum er 300 kennslustunda nám ætlað þeim sem eru að minnsta kosti 23 ára, eru starfandi á vinnumarkaði og hafa hafið nám á framhaldsskólastigi en ekki lokið almennum bóklegum greinum með prófi. Þeir þættir sem teknir eru fyrir í náminu eru íslenska, danska, enska, stærðfræði, námstækni, sjálfsþekking og samskipti. Fái nemandi greinarnar metnar inn í framhaldsskóla þá jafngildir þetta nám þeim almennu bóklegu greinum sem krafist er í iðnnámi. Náminu er skipt á þrjár annir og verður það kennt utan hefðbundins vinnutíma.

Fagnámskeið II fyrir starfsmenn í heilbrigðis- og félagsþjónustu er 60 kennslustunda nám ætlað ófaglærðum starfsmönnum í heilbrigðis- og félagsþjónustu. Meðal þeirra þátta sem teknir eru fyrir eru; skyndihjálp, sálræn skyndihjálp, líkamsbeiting og vinnustaða, almenn sálfræði, áhrif mataræðis á heilsuna, hreinlæti og smit, algengir sjúkdómar, smit og smitleiðir. Námskeiðið er framhald af fagnámskeiði I sem var haldið á vorönn 2012 en nýir þátttakendur eru velkomnir.

Smiðja í handverki og hönnun er 120 kennslustunda nám og hefur ekki áður verið í boði hjá Fræðslumiðstöðinni. Smiðjan skiptist í 2 lotur. Í fyrri lotunni verður lögð áhersla á undirstöðuatriði hönnunar og handverks. Kennt verður að vinna í mótuðu ferli undir verkstjórn. Í seinni lotunni verður lögð áhersla á að bæta við og festa í minni þekkingu sem fékkst í fyrri lotunni og auka leikni til að vera fær um að vinna samkvæmt verklýsingum.
Gunnnámskeið fyrir fiskvinnslufólk er 60 kennslustunda nám ætlað starfsfólki í fiskvinnslum. Meðal þeirra þátta sem fjallað var um eru öryggi á vinnustöðum, skyndihjálp, innra eftirlit, hreinlæti, vinnuaðstaða, samskipti á vinnustað, atvinnulífið og launakerfið, fjölmenning og gæðastjórnun.

Nemendur í skrifstofuskólanum sem kenndur var eftir námsskrá Fa veturinn 2011-2012.
Deila