Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Mikill vöxtur hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða

17.4.2008
Frá Hólmavík
Aðalfundur Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða fyrir árið 2008, var haldinn fimmtudaginn 17. apríl 2008.
Var þar gerð grein fyrir rekstri ársins 2007 og samþykkt starfsáætlun fyrir árið 2007.

Margir halda að Fræðslumiðstöðin hafi verið lögð niður við stofnun Háskólaseturs Vestfjarða, en það er hinn mesti misskilningur. Fræðslumiðstöðin lifir góðu lífi og sinnir sí- og endurmenntun utan hins formlega skólakerfis. Hún er til húsa að Suðurgötu 12 á sama stað og Háskólasetrið. Stofnanirnar sinna hvor sínu menntastiginu og eru í mjög góðu samstarfi.

Á árinu 2007 varð veruleg aukning á starfsemi Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða. Heildarvelta miðstöðvarinnar var 49 milljónir króna, samanborið við 29 milljónir árið 2006. Miðstöðin hélt 85 námskeið (67 árið 2006) í 126 nemendahópum (88). Samanlagður fjöldi þátttakenda var 1361, en 943 árið áður. Konur voru í miklum meirihluta þátttakenda, eða um 80%. Hefur hlutfall þeirra aldrei verið jafn hátt. Af einstaka stöðum var samanlagður fjöldi nemenda mestur á Hólmavík, samtals 400. Á Ísafirði voru þeir rúm 300 og tæp 300 í Bolungarvík.

Afkoma Fræðslumiðstöðvarinnar var góð á árinu 2007 og því ákvað aðalfundur að blása til ennfrekari sóknar.

Fræðslumiðstöðin hefur ráðið Maríu Ragnarsdóttur B.Ed. til starfa í Vesturbyggð og Tálknafirði og hefur hún aðsetur í Þróunarsetri Vestur - Barðastrandarsýslu. Þá hefur miðstöðin ákveðið að ráða Kristínu Sigurrósu Einarsdóttur B.Ed. í hálft starf á Ströndum og mun hún fá aðstöðu í hinu nýja þróunarsetri á Hólmavík. Á Ísafirði mun jafnframt verða fjölgað starfsfólki, einkum með því að ráða fólk í föst störf í stað verktakavinnu.

Helstu verkefni sem Fræðslumiðstöð Vestfjarða sinnir auk hefðbundinna námskeiða, eru náms- og starfsráðgjöf og greining fræðsluþarfa innan fyrirtækja og stofnana.

Af þróunarverkefnum má nefna Atvinnuíslenska, sem er tal- og vefsetningu á námsefni í íslensku fyrir útlendinga, Efling fjarkennslu og Fræðsluhönnun í heimabyggð.

Fræðslumiðstöð Vestfjarða er sjálfseignarstofnun sem 9 aðilar standa að. Eru það fyrirtæki og stofnanir sem starfa á fjórðungsvísu. Fræðslumiðstöðin er aðili að Kvasi, samtökum fræðslu- og símenntunarmiðstöðva á landsbyggðinni og Leikn, heildarsamtökum fullorðinsfræðsluaðila á Íslandi.
Deila