Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Mikill vöxtur í námskrám FA

Eins og fram hefur komið í fréttum af starfi Fræðslumiðstöðvarinnar að undanförnu er mikill vaxtarbroddur í svokölluðum námsleiðum FA. Um er að ræða námskrár af ýmsu tagi sem skrifaðar hafa verið með fólk með litla formlega skólagöngu í huga. Námskrár þessar eru vottaðar af Mennta- og menningarmálaráðuneytinu sem jafnframt hefur samþykkt að meta megi þær til styttingar á námi til stúdentsprófs.

Námskrár þessar eru jafn mismunandi og þær eru margar og henta ýmist ákveðnum starfsstéttum eða eru mun almennari. Þar má til dæmis nefna svokallaðan grunnmenntaskóla sem er einna vinælastur þessara námsskráa og fer nú af stað hjá fjórum mismunandi hópum.

Um þessar mundir er kennsla að hefjast í nokkrum námskrám hjá Fræðslumiðstöðinni, bæði námsskrám sem byrjað var á fyrir áramót og öðrum sem eru að byrja frá grunni. Þær eru:

  • Skrifstofuskólinn á Þingeyri, hófst í dag 10. janúar

  • Grunnnám fyrir byggingaliða, hófst í dag 10. janúar

  • Nám og þjálfun í almennum bóklegum greinum á Ísafirði, hefst 18. janúar

  • Skrifstofuskólinn á Ísafirði, hófst í dag 10. janúar

  • Grunnmenntaskólin á Ísafirði, hefst 18. janúar

  • Grunnmenntaskólinn Grunnur, hefst mánudaginn 17. janúar

  • Grunnmenntaskólinn á Patreksfirði hefst á morgun, 11. janúar

  • Grunnmenntaskólinn á Reykhólum, hefst á morgun, 11. janúar (einni námsgrein var þó lokið þar fyrir áramót).


Þessu til viðbótar verða áfram kenndar tvær aðrar námsleiðir sem hófust á síðustu haustönn en eru ekki frá FA. Þar er annars vegar um að ræða Meistaragreinar (þar á meðal námskeiðin Stjórnun og Rekstrarumhverfi fyrirtækja), sem heldur áfram frá og með 10. janúar og nám í fiskeldi sem heldur áfram 14. janúar nk.

Þátttaka í öllu þessu námi er góð og Fræðslumiðstöðin bindur miklar vonir við þann vaxtarbrodd sem felst í því að bjóða upp á slíkt nám.

image
Kennsla í ensku í grunnmenntaskólanum vorið 2010.
Deila