Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

NÝTT - fjarnám fyrir ófaglært starfsfólk á leikskólum

Í haust verður bryddað upp á þeirri nýjung að bjóða upp á Fagnámskeið starfsmanna leikskóla, kennt verður í fjarnámi í samvinnu fjögurra símenntunarmiðstöðva á Suður-, Vestur- og Norðurlandi. Um er að ræða 210 kennslustunda nám samkvæmt námskrá frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og er það ætlað starfsmönnum á leikskólum sem náð hafa 20 ára aldri en hafa ekki lokið formlegu framhaldsskólanámi.

Kennt verður mánudaga og fimmtudaga kl. 17:30-20:30 í gegnum fjarfundabúnað, en einnig er hægt að nálgast allt efni og kennslu á netinu. Námið hentar því bæði þeim sem geta sótt nám þar sem fjarfundabúnaður er til staðar (s.s. Ísafirði, Hólmavík, Reykhólum, Birkimel og Patreksfirði) en einnig þeim sem eru í dreifðari byggðum og eiga erfitt með að mæta í starfstöðvar. Gert er ráð fyrir að allir nemendur hittist einu sinni í staðlotu.

Námið skiptist á tvær annar og hefst mánudaginn 3. september. Á haustönn verður kennt í 14 vikur eða til 6. desember. Á vorönn verður kennt í 10 vikur, frá 14. janúar til 14. mars.

Það stefnir í nokkuð góða þátttöku hjá hinum símenntunarmiðstöðvunum sem taka þátt í verkefninu og er það von Fræðslumiðstöðvarinnar að ófaglært starfsfólk á leikskólum á Vestfjörðum verði ekki síður duglegt að nýta sér þetta tækifæri til að eflast og þróast í starfi.

image
Deila