Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Nám fyrir fólk í ferðaþjónustu

Fimmtudaginn 20. maí n.k. hefst 60 kennslustunda nám fyrir starfsmenn í ferðaþjónustu eða þá sem stefna að starfi í greininni, þar á meðal sumarstarfsfólk. Kennt er samkvæmt námsskrá frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og er námskeiðið í samvinnu við Ferðamálasamtök Vestfjarða.

Náminu er ætlað að efla persónulega, faglega og almenna færni þess til að veita gæðaþjónustu og takast á við fjölbreytt úrlausnarefni í ferðaþjónustu. Í náminu er meðal annars fjallað um gildi ferðaþjónustu, grunnþætti í þjónustu, mismunandi þjónustuþarfir, þjónustulund og samskipti, vinnusiðfræði, hlutverk starfsmanna og verkferla á vinnustað. Hluti kennslunnar er verklegur þar sem farið verður í þrif og frágang herbergja og kennt að dúka veisluborð og setja viðeigandi borðbúnað.

Að námi loknu eiga þátttakendur að hafa betri forsendur til að taka að sér flóknari verkefni, vera sjálfstæðir í starfi og færari um að bera ábyrgð á eigin símenntun.

Námskeiðið stendur yfir virka daga á tímabilinu 20. til 28. maí og er kennt frá kl. 8:15 til 16:00. Kennari er Sigurður Arnfjörð, framreiðslumeistari, MBA og hótelhaldari á Núpi. Verð fyrir námskeiðið er 11.000 kr.
Hafi fólk utan norðanverðra Vestfjarða áhuga á að taka námskeiðið býðst þeim gisting og aðgangur að góðri eldunaraðstöðu á Hótel Núpi fyrir 1 kr. á nótt á meðan námskeiðið stendur yfir.
Deila