Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Námskeið í Ólafsdal í ágúst og september

Ólafsdalsfélagið hefur auglýst námskeið í Ólafsdal í Gilsfirði, sem er rétt handan við starfssvæði Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða. Um er að ræða fjögur námskeið sem tengjast starfsemi Ólafsdals, en þar var sem kunnugt er Búnaðarskóli fyrir rúmri öld síðan. Fyrsta námskeiðið heitir Grænmeti og góðmeti í Ólafsdal og fer fram 6. ágúst í Ólafsdal. Þar verður Slow Food hreyfingin kynnt, grænmetisrækt í Landbúnaðarskólanum í Ólafsdal á 19. öld verður einnig kynnt og fjallað um gildi og nýting lífræns grænmetis, fyrir mannslíkamann og umhverfið. Þá fer fram grænmetisupptaka og smakk. Þátttakendur fá hlut í uppskeru.
Annað námskeiðið heitir Sölvafjara og Sushi og fer fram 20. ágúst í Tjarnarlundi í Saurbæ. Kynnt verður hugmyndafræði Slowfood-hreyfingarinnar og fjallað um nýtingu sölva og þara eins og hún var fyrr á tímum og í Ólafsdalsskólanum á 19. öld. Gengið verður í sölvafjöru við Tjaldanes og safnað þangi, þara og sölvum.
Þriðja námskeiðið nefnist Ostagerð og Slowfood og fer fram í Tjarnarlundi þann 3. september. Námskeiðið er opið öllum sem áhuga hafa á góðum mat, ostum og ostagerð því hana er hægt að stunda nánast í hvaða eldhúsi sem er. Kynnt verður hugmyndafræði Slowfood-hreyfingarinnar. Á námskeiðinu verða kynntar einfaldar framleiðsluaðferðir, tæki, tól og aðstaða, sem þarf fyrir einfalda ostagerð (svo sem skyr, kotasæla, feti).
Fjórða námskeiðið er Grjót- og torfhleðsla og er það haldið í Ólafsdal helgina 3.-4. september. Námskeiðið er ætlað öllum sem áhuga hafa á handverki, hleðslum, byggingalist eða garðaskipulagi. Í Ólafsdalsskólanum voru hlaðnir umfangsmiklir grjótgarðar um tún, en einnig lá falleg hlaðin tröð heim að húsunum. Á námskeiðinu verða hlaðnir nýjir veggir en einnig sýnd handtök við endurhleðslu gamalla garða.
Fyrstu tvö námskeiðin eru sérstaklega auglýst sem fjölskylduvæn námskeið, en um leið og þau fara fram eru haldin sérstök námskeið fyrir börn um tengd viðfangsefni.
Nánari upplýsingar um námskeiðin er að finna á vefsíðunni olafsdalur.is.
Skráning á námskeiðin á á netfanginu olafsdalur@gmail.com og þarf að skrá nafn, kennitölu, fullt heimilsfang, síma, netfang og nafn námskeiðs.


Deila