Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Námsvísir vetrarins kominn á netið

Námsvísir vetrarins er kominn á netið og er hægt að nálgast hann hér. Hann er auk þess á heimasíðuna undir tengilinn Námsvísir 2009 - 2010, vinstra megin á síðunni.

Í námsvísinum eru auglýst alls tæplega 60 námskeið og námsleiðir í 7 flokkum. Flest námskeiðin eru í flokki tómstunda (21) og næst flest í flokki tungumála (12). Af tómstundanámskeiðum má nefna námskeið um að setja rennilása í lopapeysu og ljósmyndanámskeið. Af tungumálum má nefna ítölsku og pólsku, auk hefðbundinna námskeiða í íslensku og ensku.

Af öðrum námskeiðum má nefna tölvuna sem vinnutæki, jarðsögu Vestfjarða í máli og myndum, þjóðfræði og Strandir, bóklegt ökunám og svæðisleiðsögunám á Vestfjöðrum. Þá eru einnig flest hefðbundin námskeið svo sem smáskipanám og vélgæsla, auk námsleiða Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins.

Fræðslumiðstöð Vestfjarða hefur það að stefnu sinni að þjóna öllum Vestfirðingum, hvar sem þeir búa. Þess vegna er miðstöðin með starfsfólk á 3 stöðum, eða með 3 starfsstöðvar eins og við köllum það. Starfsstöðin fyrir norðursvæðið er á Ísafirði, fyrir suðursvæðið á Patreksfirði og fyrir Reykhólahrepp og Strandir á Hólmavík. Allgott framboð námskeiða er á öllum þessum svæðum. Nokkuð vantar þó á að allir staðir fái nægilegt framboð. Unnið hefur verið að því að laga það og verður þeirri vinnu haldið áfram. Einn liður í því er að auka fjarkennslu. Með betri nettengingum aukast möguleikar á því.

Auk námskeiðahalds veitir Fræðslumiðstöðin einstaklingum náms- og starfsráðgjöf. Verið óhrædd að óska eftir viðtala við ráðgjafa.

Fræðslumiðstöð Vestfjarða fagnar tíu ára afmæli sínu á þessu ári. Á þessum tíu árum hefur mikil gróska verið í fullorðinsfræðslunni. Hún er það menntastig sem hefur vaxið mest, aðferðir hafa þróast og fullorðinsfræðslan fest sig í sessi sem sérgrein innan mennta- og kennslufræða. Á þessu tímabili hefur fjármagn til fullorðinsfræðslunnar aukist mjög og nýir starfsmenntasjóðir verið stofnaðir. Er fólk sérstaklega hvatt til að nýta sér þá. Fræðslumiðstöð Vestfjarða hefur reynt að láta ekki sitt eftir liggja, heldur þroskast og þróast jafnt og þétt og jafnóðum tekið upp það nýjasta á þessu sviði.

Þrátt fyrir erfiða tíma hjá íslenskri þjóð heldur Fræðslumiðstöðin ótrauð inn á nýjan áratuginn og er fólk hvatt til að bregðast við samdrætti og kreppu með því að nýta tímann til náms.
Deila