Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Opnun námsvers á Flateyri

3. október 2011
Föstudaginn 30. september sl. opnaði Fræðslumiðstöðin námsver á Flateyri. Námsverið er til húsa á annarri hæð að Eyrarvegi 8, þar sem áður var Hjúkrunarheimilið Sólborg. Í námsverinu verður góð aðstaða til að kenna það sem Fræðslumiðstöðin verður með á Flateyri í vetur.

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða leigir Fræðslumiðstöðinni húsnæðið gegn vægu gjaldi. Íbúasamtök Flateyrar, félagsskapurinn Hús og fólk og fleiri aðilar svo sem Vífilfell, hafa útvegað húsgögn, tól og tæki, en mest munar þó um þá rausn sem Landsbankinn sýndi með því að færa Fræðslumiðstöðinni 12 tölvur til notkunar í námsverinu.

Fræðslumiðstöðin hefur unnið náið með Íbúasamtökum Flateyrar og félagsskapnum Hús og fólk við að koma aðstöðunni upp, sem og með vali á námsframboði og öllu skipulagi námsins.

Í haust verður einkum boðið uppá nám sem ríkisstjórnin veitti fé til í samþykkt sinni hinn 5. apríl s.l. um Efling atvinnu og byggðar á Vestfjörðum. Þar má nefna bókhald, stærðfræði, tölvur og þýsku, auk íslensku fyrir útlendinga. Íslenskukennslan fer reyndar fram með óhefðbundnum hætti, þar sem nemendur munu setja upp íslenskt leikrit og sýna það á almennum sýningum.

Sigurborg Þorkelsdóttir hefur umsjón með starfseminni á Flateyri fyrir hönd Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða.

Við opnunina var mættur drjúgur hópur fólks til að kynna sér aðstöðuna og skrá sig í nám.

Meðfylgjandi myndir eru frá opnuninni.

image

image

image

image

image

image
Deila