Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Raunfærnimat í matartækni

Hópurinn sem útskrifaðist.
Hópurinn sem útskrifaðist.

Í gær þann 9. apríl 2015 útskrifuðust 7 konur úr raunfærnimati í matartækni. Raunfærnimat er mat á þeirri reynslu og þekkingu sem viðkomandi hefur aflað sér á vinnumarkaði og getur verið möguleg stytting á námi. Metið er á móti námskrá í viðkomandi fagi sem að þessu sinni var matartækni. Matið fór fram bæði í skólaþætti og vinnustaðaþætti námsins.

Nám í matartækni er 140 einingar, þar af eru 80 einingar í vinnustaðanámi. Fræðslumiðstöð Vestfjarða vann verkefnið í samvinnu við IÐUNA fræðslusetur í Reykjavík. Matsaðilar í raunfærnimatinu voru Margrét Sigurbjörnsdóttir kennari við Menntaskólann í Kópavogi og Olga Gunnarsdóttir sem vinnur á Hjúkrunarheimilinu Skógarbæ. Að hálfu Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða sá Sigurborg Þorkelsdóttir verkefnastjóri um utanumhald og undirbúning, ásamt Birni Hafberg náms- og starfsráðgjafa sem fór með þátttakendum yfir gátlista. Verkefninu stjórnaði Edda Jóhannesdóttir, náms- og starfsráðgjafi hjá IÐUNNI.

Óhætt er að segja að konurnar hafi staðið sig vel og fengið mjög gott mat enda reynslumiklar í sínu sviði sem er að sjá um matargerð hjá fyrirtækjum eða skólastofnunum.

Í framhaldinu mun Menntaskólinn á Ísafirði sjá um að kenna það sem upp á vantar til að ljúka námi í matartækni í samvinnu við Menntaskólann í Kópavogi og Fræðslumiðstöð Vestfjarða. Námið er opið öllum sem hug hafa á að mennta sig á þessu sviði. Sjá nánar um námið hér 

 

Deila