Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Raunfærnimat og kynning á vetrarstarfinu

Björn Hafberg náms- og starfsráðgjafi býður upp á einstaklingsviðtöl á Reykhólum þriðjudaginn 29. september frá kl 13:00 og á Patreksfirði miðvikudaginn 30. september frá kl 15 í Þekkingarsetrinu Skor. Tímapantanir hjá Birni eru í síma 899 0883.
Þriðjudaginn 29. september kl 16:00 verður svo kynning í Grunnskólanum á Reykhólum. Þar mun Björn Hafberg kynna raunfærnimat, sem er mat á starfsreynslu til styttingar á námi í átt til sveinsprófs. Raunfærnimat hentar þeim sem hófu einhvern tímann iðnnám eða hafa starfað lengi í iðngrein og vilja ljúka námi á sem stystan hátt. Einnig mun Kristín Sigurrós Einarsdóttir verkefnastjóri hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða kynna starfsemi vetrarins og nýútkominn bækling Fræðslumiðstöðvarinnar. Kynning á raunfærnimati verður í Þekkingarsetrinu Skor á Patreksfirði miðvikudaginn 30. september kl 20.

IÐAN ? fræðslusetur hefur hrundið af stað verkefni sem miðar að því að aðstoða fólk á norðanverðum Vestfjörðum, sem starfar við iðngreinar án fagréttinda að ljúka sveinsprófi. Verkefnið er unnið í samstarfi við Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, Menntaskólann á Ísafirði og Fræðslumiðstöð Vestfjarða og gengur undir vinnuheitinu Bættu um betur. Hluti af verkefninu er að gefa fólki kost á að gangast undir svokallað raunfærnimat, þar sem það fær færni sína og kunnáttu metna uppí fagáfanga í iðnnámi. Að auki fær fólk fyrra nám metið, samkvæmt almennum reglum þar um, en þarf svo að ljúka því námi sem uppá vantar. Að því loknu getur það gengist undir sveinspróf.
Raunfærnimat er tilraunverkefni sem menntamálaráðuneytið fól Fræðslumiðstöð atvinnulífsins að útfæra. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins samdi við IÐUNA ? fræðslusetur og Fræðsluskrifstofu rafiðnaðarins um að framkvæma raunfærnimatið.
Samsvarandi samstarf verður tekið upp við Fræðsluskrifstofu rafiðnaðarins um raunfærnimat í rafiðngreinum.
Verkefnið bættu um betur felst í því að búa til leiðir til að meta færni þátttakenda, stöðu þeirra og gefa þeim kost á að ljúka námi sínu. Mat á raunfærni byggir á þeirri hugmynd að nám fari ekki eingöngu fram innan formlega skólakerfisins heldur í alls konar aðstæðum en að allt nám sé verðmætt og að það sé skjalfest óháð því hvar þess hefur verið aflað. Tilgangur raunfærnimats er að draga fram og meta fjölbreytilega raunfærni sem einstaklingurinn býr yfir.
Margir einstaklingar á vinnumarkaði hafa í gegnum áralanga reynslu byggt upp umtalsverða færni í ákveðinni iðngrein, en ekki lokið námi af einhverjum ástæðum. Þessir einstaklingar búa yfir raunfærni sem vert er að skoða og meta. Raunfærni er samanlögð færni sem einstaklingur hefur náð með ýmsum hætti, s.s. starfsreynslu, starfsnámi, frístundanámi, skólanámi, félagsstörfum og fjölskyldulífi.
Deila