Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Raunfærnimati í fisktækni lokið á Ströndum

Þátttakendur í raunfærnimat.
Þátttakendur í raunfærnimat.

Í janúar fóru fjórtán starfsmenn frá Hólmadrangi á Hólmavík og Drangi á Drangsnesi í gegnum raunfærnimat í fisktækni. Með raunfærnimatinu var verið að meta þá þekkingu og færni sem fólk hefur aflað sér í gegnum tíðina á móti tilteknum áföngum í fisktækninámi sem Fisktækniskóli Íslands kennir. Raunfærnimatið getur leitt til styttingar á námi þar sem nemendur þurfa þá ekki að taka þá áfanga sem þeir fá metna.

Mánudaginn 23. febrúar komu þátttakendur saman í fundarsal Hólmadrangs til þess að taka við viðurkenningum fyrir matið og þiggja léttar veitingar í tilefni dagsins.  Það er óhætt að segja að raunfærnimatið hafi komið vel út og mun stytta þátttakendunum leiðina í gegnum fisktækninámið. Nú er verið að skipuleggja framhaldið og er gert ráð fyrir að þátttakendur geti lokið fisktæknináminu í heimabyggð ýmist með fjarkennslu eða kennslu á staðnum.

Raunfærnimatið er afrakstur af verkefni um hækkað menntunarstig í Norðvesturkjördæmi sem Fræðslumiðstöð Vestfjarða átti aðild að. Námið í framhaldi er samvinnuverkefni Fræðslumiðstöðvarinnar, Fisktækniskólans og Menntaskólans á Ísafirði.

Deila