Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Sinfóníuhljómsveitin - frá toppi til táar

11. október 2012
imageMiðvikudagskvöldið 17. október verður næsta námskeiðið um tónlist frá ýmsum hliðum. Þá mun Rúnar Vilbergsson fagottleikari og meðlimur í Sinfóníuhljómsveit Íslands fjalla um fagottið og skyld hljóðfæri, samsetningu sinfóníuhljómsveita, tónsmíðar og mismunandi túlkun þeirra. Fjallað verður um ferlið frá því tónskáldið fær hugmynd og setur nótur á blað þar til tónverkið tekur á sig mynd í huga hlustandans; hvernig til getur orðið heillandi hljóðheimur framkallaður með ýmiskonar hljóðfærum úr málmi skinnum og tré. Einnig verður skoðað hvers konar áhrif músíkin hefur á huga okkar og líkama.

Hérna gefst fólki einstakt tækifæri til að kynnast heimi sinfóníuhljómsveitarinnar af manni sem er þar innanbúðar auk þess að hafa reynslu og þekkingu af nánast öllum gerðum tónlistar.

Af hverju líkar okkur ein gerð tónlistar betur en önnur?
Af hverju líkar sumum best við ættjarðarlögin, en öðrum við rokk, óperur eða kínverska tónlist? Af hverju vilja Kúrdar helst hlusta á Kúríska tónlist en Grunnvíkingar á Strolluna, nema þeir sameini það og hlusti á Strolluna á Kúrdísku?

Námskeiðaröðin Tónlist frá ýmsum hliðum er samstarfsverkefni Listaskóla Rögnvaldar Ólafssonar og Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða.

Námskeiðin verða óháð hvert öðru og koma að tónlistinni frá ýmsum hliðum. Lagt er upp úr notalegu umhverfi þar sem fólk fræðist og nýtur tónlistar yfir kaffi og meðlæti. Námskeiðin eru öllum opin, en þó einkum miðuð við fólk sem hefur áhuga á tónlist en ekki hlotið mikla tónlistarlega menntun.
Menningarráð Vestfjarða styrkir verkefnið.

Sinfóníuhljómsveitin - frá toppi til táar verður á 2. hæð í menningarmiðstöðinni Edinborg, miðvikudaginn 17. október kl. 20 ? 22.

Aðgangseyrir er 1.500 kr. en 1.000 kr. fyrir námsmenn og ellilífeyrisþega.
Ekki þarf að skrá sig fyrirfram.
Deila