Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Sjö nemendur ljúka nýju námi í hlífðargassuðu

Sex af sjö nemendum í hlífðargassuðu ásamt kennurum sínum.
Sex af sjö nemendum í hlífðargassuðu ásamt kennurum sínum.

Þann 9. maí útskrifaði Fræðslumiðstöðin sjö nemendur úr hlífðargassuðu. Námið var kennt á vorönn 2014 og var samstarfsverkefni Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða, Menntaskólans á Ísafirði og 3X Technology ehf. Kennt var samkvæmt námskrá um hlífðargassuðu sem þessir aðilar þróuðu í sameiningu á síðasta ári og var því í raun um tilraunakennslu  að ræða þar sem þetta hefur aldrei verið í boði áður.  

Námið er ætlað fólki sem hefur hug á að vinna í framleiðslufyrirtækjum við hlífðargassuðu með sérstakri áherslu á ryðfrítt stál og er bæði verklegt og bóklegt, alls 135 kennslustundir. Hluti kennslunnar fór fram í húsakynnum Menntaskólans en hluti var kenndur hjá 3X. Kennara voru feðgarnir Tryggvi Sigtryggsson framhaldsskólakennari og Jakob Ólafur Tryggvason meistari í stálsmíði.

Við útskriftina var ekki annað að sjá og heyra en að bæði nemendur og aðstandendur námsins væru ánægðir með hvernig til tókst.  Þetta nám er gott dæmi um árangursríkt samstarf atvinnulífs og fræðslustofnana á svæðinu, nokkuð sem Fræðslumiðstöðin vill leggja áherslu á og vinna að.

Deila