Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Spennandi námskeið framundan

Þá er vorönnin hafin hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða og er margt spennandi framundan.

Ýmiskonar tölvunámskeið eru fyrirhuguð. Hægt verður að læra á ipad og iphone og einnig spjaldtölvur og síma sem nota android stýrikerfið. Þessi námskeið hafa verið í boði áður og sérstaklega vinsæl hjá eldra fólki sem er ný búið að fá sér svona tæki og vill verða meira sjálfbjarga en ekki þurfa að treysta á börn og barnabörn til þess að segja sér til. Þá verður boðið upp á námskeið sem kallast Tölvur ekkert mál – Netið, tölvupóstur og facebook. Það er ætlað fólki með litla tölvufærni og verður kennt strax eftir hádegi, tilvalið fyrir fólk sem er laust við á daginn, til dæmis þá sem hættir eru að vinna.

Önnur tölvunámskeið sem búið er að setja á dagskrá eru Outlook 2010, Google Hangout, Windows 8 og dk tölvubókhald.

Eins og ávalt verður nokkuð framboð á tungumálanámskeiðum. Íslenska fyrir útlendinga er á sínum stað og eru fyrirhuguð námskeið bæði fyrir byrjendur og námskeið á stigi 2 sem ætlað er þeim sem lokið hafa byrjendanámskeiði eða hafa samsvarandi kunnáttu. Reglulega er boðið upp á enskunámskeið og að þessu sinni er námskeið sem ætlað er fólki með einhvern smá grunn í málinu, t.d. þá sem lokið hafa byrjendanámskeiði eða hafa lært ensku fyrir löngu síðan en lítið notað hana. Einnig verða í boði námskeið í þýsku II, spænsku II og pólsku II. Þessi námskeið eru öll ætluð fólki með einhvern smá grunn í þessum málum, hafa t.d. sótt byrjendanámskeið, og gefst hér upplagt tækifæri til að bæta ofan á þá þekkingu.

Tómstundanámskeiðin eru á sínum stað og má þar nefna LKL matreiðslunámskeið, víravirkinámskeið bæði fyrir byrjendur og framhaldsnámskeið og námskeið í vefnaði.

Lengra nám og réttindanám er einnig í boði. Á hverju ári er boðið upp á smáskipanám og vélgæslunám og svo er einnig nú. Þá er verið að auglýsa viðbótarnám í vélstjórn sem kennt er í samstarfi við Menntaskólann á Ísafirði. Síðasta vetur var tilraunakennsla á námi í hlífðargassuðu í samstarfi við Menntaskólann og 3X Tecnology sem tókst mjög vel og fer væntanlega aftur af stað nú í vetur.

Einn af hornsteinum í starfsemi Fræðslumiðstöðvarinnar eru námsskrár frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins en það er ýmiskonar nám ætlað fólki með litla skólagöngu. Boðið verður upp á nám sem kallast Næstu skref í lestri og ritun  ætlað fólki sem á við lestrar- og ritunarerfiðleika að etja. Þá verður einnig boðið upp á Nám og þjálfun í almennum bóklegum greinum en það er ætlað fólki sem vill ljúka námi sem samsvarar byrjunaráföngum í framhaldsskóla í íslensku, ensku, dönsku og stærðfræði.

Hér hafa aðeins verið talin þau námskeið sem búið er að ákveða í janúar og febrúar og því aðeins hluti þess sem Fræðslumiðstöðin mun bjóða upp á nú á vorönn. Fleiri námskeið eiga eftir að bætast við og verða þau auglýst, bæði hér á heimsíðunni, á facebook og með blöðungum sem dreift er í hús.

Deila