Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Torf- og grjóthleðsla í Breiðavík

image
Í byrjun maí var haldið tveggja daga námskeið í torf- og grjóthleðslu í Breiðavík. Námskeiðið var ætlað öllum sem vildu fræðast um hvernig staðið var að þessu forna handverki. Á námskeiðinu var gömul fjárrétt í Breiðavík sem byrjuð var að falla, rifin að hluta og endurhlaðin. Kennari á námskeiðinu var Guðjón Kristinsson torf- og grjóthleðslumeistari á Árbæ í Ölfusi. Guðjón er mikið náttúrubarn, fæddur og uppalinn á Dröngum á Ströndum.

Námskeiðið var að litlum hluta bóklegt en aðallega verklegt. Nemendur fengu að spreyta sig og virkja í sér lista- og sköpunareðlið við hleðsluna. Sambærileg námskeið hafa verið haldin hjá Landbúnaðarháskóla Íslands að Reykjum í Ölfusi undanfarin ár við góðar undirtektir og alltaf verið fullt á námskeiðin. Ekki eru teknir nema tíu nemendur á hvert námskeið og var námskeiðið á Breiðavík fullt.

Nemendur komu víða að af Vestfjörðum og tókst námskeiðið vel í alla staði. Veðrið var með eindæmum hagstætt fyrir þetta námskeið, sólskin og blíða báða dagana og fóru nemendur heim rjóðir, sælir og þreyttir. Námskeiðið var haldið af Endurmenntun Landbúnaðarháskóla Íslands í samvinnu við AtVest og Fræðslumiðstöð Vestfjarða. Áhugi er á að endurtaka leikinn á næsta ári og halda sams konar námskeið á Vestfjörðum, ef næg þátttaka næst.
Deila