Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Tvö ný námskeið á döfinni - Menningarlæsi og Svæðisþekking

Laugardaginn 21. júní n.k. verða tvö ný námskeið haldin. Námskeiðin eru þau fyrstu í röð námskeiða sem hönnuð eru fyrir ferðaþjónustuaðila, en allir áhugasamir geta einnig sótt.

Þau námskeið sem verða í boði nú á vorönn eru Menningarlæsi,image
sem er ætlað að vekja til umhugsunar um hvernig við skiljum fólk frá öðrum menningarsvæðum og hvernig það upplifir okkur. Fjallað verður um einkenni á ólíkri menningu og einkenni einstaklinga frá ólíkum menningarheimum, hvernig við sem Íslendingar erum, hvernig aðrir sjá okkur og hvernig við viljum að þeir upplifi okkur. Komið verður inn á tungumál og líkamstjáning (body language). Einnig fjallað um einkenni helstu þjóða sem koma til Vestfjarða. Leiðbeinandi er Þorgeir Pálsson, framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða.

Einnig verður boðið upp á námskeiðið Svæðisþekking - Ísafjörður ? saga, menning og umhverfi meðimage Sigurði Péturssyni, sagnfræðingi.
Svæðisþekking felur í sér að kynna staðhætti og örnefni í Skutulsfirði, sögu kaupstaðarins á Eyrinni og fólksins sem þar bjó og býr enn. Þá verður fjallað um þróun verslunar, útgerðar og byggðar í Ísafjarðarkaupstað, frá skútum til skutttogara. Jafnframt hvernig saga byggðarinnar, einstakra húsa og áberandi einstaklinga tvinnast saman.
Ísafjörður er einn elsti kaupstaður landsins og var um aldamótin 1900 sá næst stærsti. Fjölbreytt félags- og menningarlíf hefur einkennt bæinn allt frá þeim tíma. Í Neðstakaupstað státar bærinn af elstu húsaþyrpingu á Íslandi. Á Tanganum er að finna heillegasta bæjarhluta frá tíma timburhúsanna, 1850-1920, sem finnst hér á landi. Þá eru á Eyrinni margar byggingar og mannvirki sem tengjast sögulegum atburðum og áhrifamiklum persónum í sögu landsins. Með því að tengja saman þekkingu á sögu bæjarins, einstakra húsa og þekktra einstaklinga kynnumst við betur bænum okkar og getum kynnt hann fyrir gestum sem sækja okkur heim.

Námskeiðin eru ætluð öllum þeim sem eiga samskipti við fólk frá öðrum löndum, sérstaklega þeim sem koma að ferðaþjónustu á einn eða annan hátt svo sem leiðsögumönnum, starfsfólki gisti- og veitingastaða, starfsfólki safna, verslunarfólki, leigubílstjórum og rútubílstjórum. Námskeiðin henta líka starfsmönnum fyrirtækja og stofnana sem eiga í erlendum samskiptum og öðrum þeim sem hafa áhuga á ólíkum menningarheimum.
Deila