Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Útskrifað úr Menntastoðum í fyrsta skipti

Þann 24. maí s.l. var í fyrsta skipti hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða útskrifað úr námi sem kallast Menntastoðir. Menntastoðir er 660 kennslustunda námsskrá frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins þar sem áhersla er á almennar bóklegar greinar; íslensku, ensku, dönsku og stærðfræði ásamt nokkrum öðrum námsþáttum. Námið er ætlað þeim sem eru að minnsta kosti 23 ára, hafa ekki lokið stúdentsprófi, eru á vinnumarkaði og vilja undirbúa sig fyrir nám í frumgreinadeild háskóla. Heimilt er að meta nám í Menntastoðum á móti allt að 50 einingum á framhaldsskólastigi þannig að ávinningur nemenda er töluverður hafi þeir áhuga á áframhaldandi námi.

Menntastoðir voru fjarkenndar og voru nemendur á Ísafirði, Hólmavík, Bíldudal og Patreksfirði. Þetta er í fyrsta skipti sem Fræðslumiðstöðin kennir svo viðamikla námsskrá í fjarkennslu. Námið var nokkuð krefjandi og ólíkt því sem yfirleitt tíðkast hjá miðstöðinni þegar ekki er um réttindanám að ræða. Þurftu nemendur að standast próf til þess að ljúka náminu.

Alls voru 11 nemendur sem luku öllum námsþáttum og útskrifuðust. Álíka fjöldi tók einhverja námsþætti án þess að ljúka námsskránni í heild en eiga það nám þá til góða vilji þeir halda áfram seinna.

Fræðslumiðstöðin er mjög ánægð með hvernig til tókst og stolt af nemendum sínum sem lögðu mikið á sig. Ekki má gleyma þætti kennaranna sem sumir hverjir voru að nota aðferðir fjarkennslunnar í fyrsta skipti en komust mjög vel frá því eins og við var að búast. 

Deila