Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Útskrift á Þingeyri

Þátttakendur ásamt Auði Ólafsdóttur kennara og Smára Haraldssyni forstöðumanni Fræðslumiðstövarinnar.
Þátttakendur ásamt Auði Ólafsdóttur kennara og Smára Haraldssyni forstöðumanni Fræðslumiðstövarinnar.

Miðvikudaginn 21. janúar útskrifuðust átta konur konur sem starfa hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Þingeyri eftir 120 kennslustunda nám hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða, en námið hófst í byrjun október. Þessar vösku konur hafa lagt sig mikið fram við námið og stundað það af kappi. Í tilefni útskriftarinnar gerðu þær sér glaðan dag og borðuðu saman enda búnar að vinna fyrir því. Fræðslumistöðin óskar þeim til hamingju með að hafa lokið þessum áfanga.

Námið á Þingeyri samanstóð af tveimur námsskrám frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Annars vegar Meðferð matvæla sem er 60 kennslustunda nám þar sem meðal annars er fjallað um gæði og öryggi í meðferð matvæla, matvælavinnslu, geymsluþol, merkingar á umbúðum, hollustu máltíða, ofnæmi og óþol og fæðuflokkana. Kennari var Salome Elín Ingólfsdóttir næringarfræðingur. Hins vegar var 60 kennslustunda nám sem kallast Þjónustuliðar – grunnnám en meðal námsþátta þar eru líkamsbeiting, smitgát, öryggismál, þjónusta, sótthreinsun, ræsting og skyndihjálp. Megin þungi kennslunnar í þjónustuliðanáminu var á herðum Auðar Ólafsdóttur hjúkrunarfræðings og Hörpu Guðmundsdóttur iðjuþjálfa en aðrir kennarar komu einnig að kennslunni.

Náminu var komið á í góðri samvinnu við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða og er í raun til fyrirmyndar um hvernig fyrirtæki og stofnanir geta stutt starfsfólk sitt til þess að sækja sér aukna þekkingu og eflst þannig í starfi.  Þetta er afrakstur verkefnis um hækkað menntunarstig í Norðvestur kjördæmi sem Fræðslumiðstöðin hefur átt aðild að undanfarið eitt og hálft ár.

Deila