Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Víðreist um Vestfirði í viku símenntunar

Vika símenntunar á Hólmavík
Fræðslumiðstöðin gerði víðreist um Vestfirði í síðustu viku ásamt fríðu föruneyti. Fulltrúar frá Verkalýðsfélagi Vestfjarða, Háskólasetri Vestfjarða og Vinnumálastofnun slógust í för með okkur. Byrjað var á að heimsækja nokkur fyrirtæki á norðursvæðinu og síðan var svokölluð Menntakista opnuð í Björgunarsveitarhúsinu á Þingeyri á mánudagskvöldið. Í Menntakistunni voru kynningar á námsframboði, styrkmöguleikum stéttarfélaga, örnámskeið í internetnotkun og örnámskeið í útieldun sem Þorsteinn Þráinsson matreiðslumeistari á Ísafirði sá um. Einnig skemmtiatriði, en á Þingeyri var það Þórhallur Arason sem sá um söng og gítarleik. Á þriðjudaginn var farið á Tálknafjörð og Bíldudal og Menntakistan síðan opnuð í Sjóræningjahúsinu á Patreksfirði. Þar enduðu þær Mariola og Elzbieta Kowalczyk kvöldið með söng. Á miðvikudaginn voru fyrirtæki á Patreksfirði heimsótt og síðan ekið á Strandir. Þar var kvöldverðafundur með kennurum í grunnmenntaskólanum. Á fimmtudaginn voru fyrirtæki og stofnanir á Drangsnesi heimsótt fyrir hádegi og á Hólmavík eftir hádegi. Um kvöldið var síðan Menntakistan opnuð í Galdrasýningunni á Hólmavík. Þar var margt um manninn og dagskráin endaði á því að Stefán Steinar Jónsson skemmti viðstöddum með frumsaminni tónlist. Menntakistunni á Reykhólum var frestað um óákveðinn tíma en stefnt er að ferð þangað í október. Þá verður Menntakistan opnuð á Ísafirði um leið og nýtt húsnæði Fræðslumiðstöðvarinnar verður formlega tekið í notkun en stefnt er að því að það verði upp úr miðjum október.
Deila