Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Vilt þú taka þátt í skemmtilegu verkefni?

8. mars 2013
imageÞrír framhaldsnemar í sálfræði við Háskóla Íslands leita eftir fólki á aldrinum 17 til 64 ára til að hjálpa sér við að staðla vitsmunapróf Wechslers (Wechsler Abbreviated Scale of Intelligence, WASI) að íslenskum aðstæðum.

Stöðlun prófsins fer þannig fram að lögð er könnun fyrir hvern þátttakanda (maður á mann). Fyrirlögnin tekur um 40 - 50 mínútur og þykir flestum skemmtilegt að glíma við verkefnin. Aldur, kyn og menntun eru skráð en hvorki nafn né kennitala og því ekki hægt að rekja niðurstöður til einstakra þátttakenda. Frumgögnum verður eytt þegar tölvuskráningu lýkur. Persónuvernd hefur verið tilkynnt um framkvæmd stöðlunarinnar.

Þremenningarnir verða hjá Háskólasetrinu og Fræðslumiðstöðinni að Suðurgötu 12 á Ísafirði sunnudaginn 10. og mánudaginn 11. mars.

Þeir sem vildu gefa kost á sér og hjálpa til við þetta mikilvæga verkefni eru beðnir um að hafa samband við einhvern hinna þriggja með síma eða tölvupósti. Þau eru:
Emanúel Guðmundsson: emanuel@hi.is. S: 8641175.
Hafdís Rósa Sæmundsdóttir: hrs@hi.is. S: 8237075.
Monika Skarphéðinsdóttir: mss16@hi.is. S: 8566363.

Hér er um að ræða stöðlun á styttri útgáfu af vitsmunaprófi Wechslers fyrir fullorðna. Stöðlunin er ekki kostuð af neinum heldur er þetta alfarið verkefni þriggja framhaldsnema í sálfræði undir stjórn Dr. Einars Guðmundssonar dósents í sálfræði við Háskóla Íslands.

Af hverju hefur verkefnið samfélagslegt gildi?
Á Íslandi eru nú notuð vitsmunapróf með bandarískum viðmiðum, þ.e.a.s. þegar fólk tekur vitsmunapróf á Íslandi eru niðurstöður prófsins bornar saman við niðurstöður Bandaríkjamanna. Rannsóknir hafa sýnt að bandarísk viðmið henta ekki til notkunar á Íslandi. Okkar verkefni er að leggja vitsmunaprófið WASI fyrir um 350 Íslendinga á landsbyggðinni til þess að ljúka söfnun íslenskra viðmiða fyrir WASI. Með því lýkur nærri fimm ára vinnu nokkurra framhaldsnema við sálfræðideild Háskóla Íslands.
Deila