Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Ýmsar námsleiðir í boði - kynning 23. september

Ein af megin stoðunum í starfsemi Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða eru svokallaðar námsleiðir sem kenndar eru samkvæmt námsskrám frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Þar er um er að ræða 60-300 kennslustunda nám ætlað fólki sem ekki hefur lokið framhaldsskóla en vill annað hvort komast af stað í almennu námi eða eflast í starfi. Námið er styrkt af Fræðslusjóði og því á mjög hagstæðu verði miðað við annað nám af svipaðri lengd.

Þriðjudaginn 23. september kl. 18:00 (ekki 22. eins og áður var auglýst) verður kynning hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða, Suðurgötu 12, Ísafirð þeim námsskrám sem settar hafa verið á dagskrá nú í haust. Þær eru:

  • Grunnmenntaskólinn – 300 kennslustunda almennt nám fyrir þá sem hafa aðeins lokið grunnskólanámi. Meðal námsþátta er íslenska, enska, stærðfræði og tölvufærni. Námið nær yfir þrjár annir. Tilvalið fyrir þá sem ekki hafa setið á skólabekk í langan tíma en langar að komast aftur af stað með því að styrkja sig í grunnfögum.
  • Nám og þjálfun í almennum bóklegum greinum – 300 kennslustunda nám ætlað þeim sem hafa byrjað í framhaldsskóla en ekki lokið námi. Helstu námsþættir eru íslenska, enska, danska og stærðfræði og eru þeir nokkuð sambærilegir við fyrstu áfanga í framhaldsskóla. Námið er kennt á þremur önnum.
  • Sterkari starfsmaður, upplýsingatækni og samskipti – 150 nám fyrir fólk sem vill auka færni til að takast á við breytingar í starfi og ná betri tökum á upplýsingatækni og tölvum. Meðal námsþátta eru sjálfsstyrking og samskipti, vinnustaðamenning og námstækni en aðal áherslan er þó á upplýsingatækni og tölvufærni. Kennt á tveimur önnum.
  • Landnemaskóli II – 120 kennslustunda námætlaður þeim sem hafa annað móðurmál en íslensku og hafa lokið Landnemaskóla I eða náð nokkuð góðum tökum á íslensku. Kennt á tveimur önnum.
  • Þjónustuliðar, grunnnám – 60 kennslustunda nám ætlað þeim sem starfa við hreingerningar eða sótthreinsun, í býtibúrum, borðstofum, kaffistofum, matsölum eða þvottahúsum. Meðal námsþátta eru líkamsbeiting, smitgát, öryggismál, þjónusta, ræsting og skyndihjálp.
  • Meðferð matvæla – 60 kennslustunda nám ætlað þeim sem starfa við meðhöndlun matvæla svo sem starfsfólki í mötuneytum, veitingahúsum og verslunum. Meðal námsþátta eru gæði og öryggi við meðferð matvæla, matvælavinnsla, þrif og sótthreinsun, ofnæmi og óþol, hollusta máltíða og fæðuflokkarnir.
  • Starfsnám á samgöngu-, umhverfis– og framkvæmdasviði – 200 kennslustunda nám ætlað fólki sem vinnur á samgangna-, umhverfis- og framkvæmdasviði sveitarfélags eða vinnur sambærileg störf á vegum verktaka. Meðal námsþátta eru vinnustaðamenning, samskipti, skyndihjálp, slysavarnir og öryggismál og líkamsbeiting.  Þá eru 50 kennslustundir helgaðar valgreinum sem taka mið af störfum þátttalenda. Námi er kennt á tveimur önnum.

Fræðslumiðstöðin hvetur alla áhugasama að koma og kynna sér hvaða tækifæri bjóðast.

Deila