Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Skólaheimsókn til La Spezia

Starfskonur Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða ásamt Claire O’Neill frá CPIA og Claire Maloney frá University College Cork
Starfskonur Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða ásamt Claire O’Neill frá CPIA og Claire Maloney frá University College Cork

Fyrr á þessu ári fékk Fræðslumiðstöð Vestfjarða aðild að Erasmus+ áætluninni sem gerir starfsfólki, kennurum og nemendum miðstöðvarinnar kleift að sækja námskeið og taka þátt í starfsþróunarferðum erlendis. Nú í október fóru þrír verkefnastjórar frá Fræðslumiðstöðinni í þriggja daga Erasmus+ starfsþjálfun til La Spezia á Ítalíu.

Ferðin var hluti af samstarfsverkefni við CPIA La Spezia, fullorðinsfræðslustofnun sem leggur áherslu á tungumálanám, inngildingu og jöfn tækifæri til menntunar fyrir fólk með fjölbreyttan bakgrunn. Einnig var farið í heimsókn í Cappellini kvöldskólann þar sem fullorðið fólk sem ekki hefur lokið framhaldsskóla fær tækifæri til að ljúka grunnnámi. Jafnframt bíður skólinn upp á starfsnám í rafeindavirkjun, vélfræði og siglingafræðum.

Í ferðinni fengum við góða kynningu á fyrirkomulagi fullorðinsfræðslu á Ítalíu, m.a. skipulagi, stjórnsýslu og framkvæmd náms. Í báðum skólum hittum við stjórnendur og kennara sem deildu reynslu af verkefnum sem miða að auknu aðgengi og stuðningi auk þess að ræða áskoranir í fullorðinsfræðslu. Þá fengum við líka tækifæri til þess að hitta nemendur og fá þeirra sýn á námið.

Megináhersla var lögð á tungumálakennslu. Okkur bauðst að taka þátt í kennslustund í ítölsku sem öðru máli og líka í ensku fyrir innfædda. Það var sérstaklega gaman að fá að hitta nemendur og spjalla við þá um reynsluna af náminu. Þarna var fólk með alls konar bakgrunn og á öllum aldri, sá elsti á enskunámskeiðinu var 87 ára. Það er aldrei of seint að læra!

Með í ferðinni var enskukennari frá háskólanum í Cork á Írlandi og sköpuðust þar ný og góð tengsl sem gætu orðið grunnur að áframhaldandi samskiptum og sameiginlegum verkefnum.

Auk þess að kynnast fullorðinsfræðslunni fengum við að njóta menningar og fegurðar þessa einstaka svæðis með heimsóknum til Portovenere, Lerici og Cinque Terre. Ferðin veitti dýrmætan innblástur fyrir áframhaldandi starf Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða, sérstaklega varðandi inngildingu og þróun tungumálanáms fyrir fullorðna nemendur.

Námskeið í boða stéttarfélaga

Í samstarfi við Fræðslumiðstöð Vestfjarða bjóða stéttarfélögin Sameyki, Kjölur, Verkalýðsfélag Vestfjarða og Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur sínu félagsfólki að sækja valin námskeið hjá miðstöðinni sér að kostnaðarlausu.

Í boði eru fjölbreytt námskeið sem nýtast bæði í starfi og daglegu lífi. Má þar til dæmis nefna námskeið um fjármál, hagsýni í heimilshaldi, gervigreind, uppeldi og skyndihjálp. Námskeiðin eru ýmist fjarkennd eða staðkennd.

Nánari upplýsingar um námskeiðin sem í boði eru má finna undir flipanum Nám – Stéttarfélög. Skráning fer fram hér á síðunni, en einnig er hægt að hafa samband við Fræðslumiðstöðina í síma 456 5025 eða með tölvupósti frmst@frmst.is. Við skráningu er mikilvægt að taka fram hvaða stéttarfélagi fólk tilheyrir.

Fræðslumiðstöðin hvetur félagsfólk eindregið til að nýta sér þetta góða boð stéttarfélaganna – frábært tækifæri til að efla færni, auka sjálfstraust og styrkja sig í starfi.

Að sjálfsögðu eru öll námskeiðin opin öðrum. Fræðslumiðstöðin hvetur því alla til að kynna sér möguleika á endurgreiðslu þátttökugjalda hjá sínu stéttarfélagi.

Eldri færslur