Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Aðalfundur Fræðslumiðstöðvarinnar 2010

Aðalfundur Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða fyrir árið 2010 var haldinn föstudaginn 30. apríl 2010.

Á árinu 2009 hélt Fræðslumiðstöðin 85 mismunandi námskeið í 106 hópum. Samanlagður fjöldi þátttakenda var rúmlega 1100 og nemendastundir (margfeldi af fjölda þátttakenda og lengd námskeiða í kennslustundum) voru um 31 þúsund. Flestir þátttakenda voru á aldrinum 35-54 ára og voru konur 749 (68%) og karlar 353 (32%).
Fræðslumiðstöðin veitti 195 einstaklingsviðtöl í náms- og starfsráðgjöf.

Á 1. mynd er sýndur fjöldi námskeiða og hópa hjá miðstöðinni frá upphafi.

Fjöldi námskeiða og hópa 2009

Heildarvelta miðstöðvarinnar á árinu 2009 voru tæpar 73 milljónir króna. Um þriðjungur tekna kom af fjárlögum, um þriðjungur sem styrkir til ákveðinna verkefna svo sem náms- og starfsráðgjafar og íslensku fyrir útlendinga og um þriðjungur af námsskeiðsgjöldum.

Á 2. mynd eru sýndar tekjur og gjöld miðstöðvarinnar frá upphafi.

Tekjur og gjöld 2009

Á síðustu árum hefur kennsla á námsskrám Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins orðið sífellt veigameiri þáttur starfseminnar. Námstilboð sem grundvallast á þessum námsskrám er stundum kallað annað tækifæri til náms, enda er það fyrst og fremst hannað fyrir fólk sem ekki hefur lokið formlegu námi úr skólum.

Af nýjungum á árinu má nefna raunfærnimat og aðstoð við lesblinda.

Raunfærnimat felst í því að meta kunnáttu og færni fólks, sem það hefur aflað sér í lífinu og á vinnumarkaði til jafns við kunnáttu og færni sem aflað er í skólum. Hefur Fræðslumiðstöðin verið í samstarfi við Iðuna ? fræðslusetur og Menntaskólann á Ísafirði um raunfærnimat hjá fólki sem starfar við iðngreinar án þess að hafa lokið sveinsprófi. Hafa nú um 30 manns á Vestfjörðum gengist undir slíkt mat, eða eru að undirbúa það.

Aðstoð við lesblinda er í boði með tveimur námsskrám Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins. Hefur Fræðslumiðstöð Vestfjarða einkum notað aðra þeirra, sem byggir á nálgun sem kennd er við Ron Davis. Hafa nú um 30 manns fengið aðstoð á þessu sviði. Lesblinda og aðrar leshamlanir hafa verið mjög duldar vegna þess misskilnings að leshömlun sé tengd greindarskorti. Sem betur fer er þetta að breytast og fólk að átta sig á því að ekkert samband er þarna á milli. Fólk er því farið að þora að viðurkenna þennan vanda sinn og leita sér úrræða. Hefur starfsfólk Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða mjög orðið vart við þessa viðhorfsbreytingu, þar sem sífelldur straumur fólks leitar nú til miðstöðvarinnar vegna leshamlana.


Í öllu starfi Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða er lögð áhersla á notalegt umhverfi sem býður fólk velkomið. Fólk á að finna að það sé velkomið, það á að vera öruggt um sig, því á að líða vel og það á að vera gaman. Allt þetta örvar fólk til náms og er nauðsynleg forsenda fyrir árangri. Þá á fólk að finna og meta styrkleika sína og koma aftur til að eiga frekari samskipti við Fræðslumiðstöðina. Eins og hjá hverju öðru fyrirtæki sem selur þjónustu sína vill Fræðslumiðstöðin fá sem flesta til að líta við hjá sér.


Fræðslumiðstöðin er sjálfseignarstofnun og standa að henni 8 stofnanir og samtök sem starfa á fjórðungsvísu. Miðstöðin er með starfsstöðvar á Hólmavík, Ísafirði og Patreksfirði.
Við miðstöðina starfa 7 manns í um 4,5 stöðugildum. Milli 80 og 90 manns komu að kennslu.


Að Fræðslumiðstöð Vestfjarða standa eftirtaldar stofnanir og samtök
? Alþýðusamband Vestfjarða
? Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða
? Félag opinberra starfsmanna á Vestfjörðum
? Fjórðungssamband Vestfjarða
? Menntaskólinn á Ísafirði
? Náttúrustofa Vestfjarða
? Svæðisskrifstofa um málefni fatlaðra á Vestfjörðum
? Útvegsmannafélag Vestfjarða
? Vinnuveitendafélag Vestfjarða
Deila