Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Færni í ferðaþjónustu kynnt

Laugardaginn 7. mars kl 13:30 stendur Fræðslumiðstöð Vestfjarða fyrir opnum kynningarfundi á námskránni Færni í ferðaþjónustu. Kynningin verður í húsakynnum Fræðslumiðstöðvarinnar að Suðurgötu 12, Ísafirði og í gegnum fjarfundabúnað til Hólmavíkur og Patreksfjarðar.

Um er að ræða 60 kennslustunda nám sem ætlað er bæði þeim sem nú þegar starfa innan ferðaþjónustunnar og þeim sem hafa áhuga á að starfa innan greinarinnar, til dæmis sumarstarfsfólki.

Náminu er ætlað að efla persónulega, faglega og almenna færni til að veita gæðaþjónustu og takast á við fjölbreytt úrlausnarefni í ferðaþjónustu. Í náminu er meðal annars fjallað um gildi ferðaþjónustu, grunnþætti í þjónustu, mismunandi þjónustuþarfir, þjónustulund og samskipti, vinnusiðfræði, hlutverk starfsmanna og verkferla á vinnustað. Að námi loknu eiga þátttakendur að hafa betri forsendur til að taka að sér flóknari verkefni, vera sjálfstæðir í starfi og færari um að bera ábyrgð á eigin símenntun.

Námið má meta til allt að 5 eininga í framhaldsskólum.

Færni í ferðaþjónustu verður í boði á Ísafirði, Hólmavík og Patreksfirði og verður fjarfundabúnaður notaður við kennsluna. Ef fjarfundabúnaður verður kominn í gagnið á Reykhólum verður námið einnig í boði þar. Stefnt er að því að kennsla hefjist fimmtudaginn 12. mars nk. og kennt verði tvisvar sinnum í viku. Nánara fyrirkomulag verður ákveðið í samráði við þátttakendur.

Allir eru velkomnir og er fólk í ferðaþjónustu og aðrir sem hafa áhuga á að starfa innan greinarinnar hvattir til að mæta og kynna sér hvort þetta tækifæri til náms er ekki eitthvað sem vert er að skoða nánar.
Deila