Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Frá Himnaríki og helvíti til Hjarta mannsins ? nýtt námskeið

5. mars 2013
Fræðslumiðstöð Vestfjarða býður upp á nýtt og spennandi námskeið nú í mars þar sem fjallað verður um þríleik Jóns Kalmans Stefánssonar sem samanstendur af bókunum Himnaríki og helvíti, Harmi englanna og Hjarta mannsins. Margir hafa lesið þessar bækur enda er sögusviðið lesendum á norðanverðum Vestfjörðum mjög vel kunnugt.

Á námskeiðinu verður sjónum m.a. beint að þeirri samfélagsmynd sem dregin er upp í verkunum með tilliti til sögusviðs þeirra, ólíkum aðstæðum alþýðu og borgarastéttar og stöðu kynjanna. Auk þess ber á góma ýmislegt sem tengist frásagnarhætti verkanna, hlutverki sendibréfa, mætti orðanna og tengsl þríleiksins við fyrri verk Jóns Kalmans.

Námskeiðið verður kennt þrjú kvöld og verður hver tími sérstaklega helgaður einni bók. Engu að síður er mælt með því að þátttakendur hafi lesið öll verkin þrjú áður en námskeiðið hefst, enda verður vísað fram og til baka í þríleikinn.

Kennari á námskeiðinu er Ingi Björn Guðnason, bókmenntafræðingur og starfsmaður Háskólaseturs Vestfjaða.

Hér er á ferðinni námskeið sem áhugafólk um bókmenntir ætti ekki að láta fram hjá sér fara. Eins og alltaf er hægt að skrá sig hér á vef Fræðslumiðstöðvarinnar eða í síma 456 5025 og er skráningafrestur til 8. mars.
Deila