Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Fræðslumiðstöð Vestfjarða 20 ára!

Fræðslumiðstöð Vestfjarða var stofnuð á degi símenntunar, 28. ágúst 1999 og fagnar því 20 ára afmæli í dag. Hjá Fræðslumiðstöð er lögð áhersla á að veita þjónustu á fjórðungsvísu. Miðstöðin er því með þrjár starfsstöðvar, á Hólmavík, Ísafirði og Patreksfirði og bíður bæði upp á staðnám og fjarnám.

Það er óhætt að segja að starfsemin hafi þróast, vaxið og dafnað þessa tvo áratugi og upplagt að nota þetta tækifæri til að segja frá meginþáttum í starfsemi Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða eins og hún er í dag.

Fræðslumiðstöð Vestfjarða er starfrækt á grundvelli laga um framhaldsfræðslu. Eitt helsta verkefni miðstöðvarinnar er að skipuleggja nám, þ.e. starfstengt nám, almennt nám og tómstundanám. Mikil áhersla er á vottað nám fyrir fólk með litla skólagöngu og er það niðurgreitt af Fræðslusjóði og einnig niðurgreiða starfmenntasjóðir námskeið fyrir félagsmenn sína. Lögð er áhersla á samvinnu við atvinnulífið við val á starfstengdu námi og að hægt sé að leggja stund á nám samhliða vinnu. Þá heldur Fræðslumiðstöðin íslenskunámskeið fyrir útlendinga sem eru lykill að virkni og eflingu mannauðs í lífi og starfi í fjölmenningarlegu samfélagi okkar.

Þeim sem hyggjast stunda nám hjá Fræðslumiðstöðinni stendur til boða einstaklingsbundin náms- og starfsráðgjöf og greining á áhugasviði. Hægt er að fá mat og greiningu á sértækum námsörðugleikum ef þess er þörf og fá aðstoð við að finna viðeigandi úrræði. Einnig er boðið upp á markþjálfun fyrir þá sem leitast eftir hvatningu og valdeflingu. Jafnframt geta einstaklingar farið í raunfærnimat eða einskonar stöðupróf á vegum Fræðslumiðstöðvarinnar. Raunfærnimat byggir á því að fá metið það nám sem fer fram utan skólakerfisins, þ.e. að fá metna til eininga þá hæfni og færni sem einstaklingurinn tileinkar sér í lífi og starfi.

Fræðslustjóri að láni er verkefni sem hefur komið sterkt inn á síðustu misserum. Þar vinnur Fræðslumiðstöðin með fyrirtækjum, stofnunum og sveitarfélögum að greiningu fræðsluþarfa og gerð fræðsluáætlana.

Fræðslumiðstöð kemur að þróun námskráa og námsefnis í samstarfi við atvinnulífið, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og Menntamálastofnun. Einnig er markmiðið að starfsfólk Fræðslumiðstöðvar taki reglulega þátt í þróunarverkefnum innan lands sem utan. Nú síðast var Fræðslumiðstöðin í forsvari fyrir verkefni sem styrkt var af Evrópusambandinu og sneri að læsi og upplýsingatækni fullorðinna nemenda í dreifðum byggðum. Verkefnið var unnið í samstarfi við aðila frá Spáni, Þýskalandi og Lettlandi. Starfsfólk Fræðslumiðstöðvar er opið fyrir nýsköpunarverkefnum í framhaldsfræðslu og frekari þróun.

Markmið Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða er að leggja grunn að símenntun með það að leiðarljósi að skapa einstaklingum tækifæri til náms alla ævi. Að baki hugmyndinni um nám alla ævi býr sú hugsun að ef einstaklingur á að vera fær um að lifa og starfa í nútíma lýðræðisþjóðfélagi, sem tekur örum breytingum, þarf hann að hafa tækifæri til að mennta sig alla ævi.

Hjá Fræðslumiðstöðinni er veittur stuðningur til persónulegs vaxtar. Markhópur Fræðslumiðstöðvar er ekki hvað síst þeir einstaklingar sem hætt hafa námi í formlega skólakerfinu áður en skilgreindum námslokum var náð. Ástæður slíks brotthvarfs frá námi geta verið margvíslegar og mikilvægt er að einstaklingum sé mætt af vinsemd, virðingu og skilningi.

Hjá Fræðslumiðstöð er leitast við að byggja upp þekkingu, færni og sjálfstraust. Lögð er áhersla á að einstaklingar geti byggt á styrkleikum sínum og þróað hæfileika sína. Einstaklingurinn er aldrei fullmótaður og getur vaxið og þróað hæfileika sína alla æfi, en til þess að svo megi vera þarf þolinmæði, aðhald og jákvæða hvatningu. Starfsfólk Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða mun, hér eftir sem áður, leitast við að skapa einstaklingum góð skilyrði til persónulegs vaxtar. Þessi markmið myndu ekki nást án kraftmikils starfsfólks, öflugra kennara og fyrirlesara sem eru tilbúnir að leggja Fræðslumiðstöðinni lið og miðla af þekkingu sinni.

Ein af grunnstoðum í starfsemi Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða er það samstarf sem hún á við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og verkalýðshreifinguna. Gott samstarf við sveitarfélög, fyrirtæki og stofnanir á svæðinu skiptir Fræðslumiðstöðina líka afar miklu máli. Undirstaða starfseminnar er að þessir aðilar nýti sér starfsemi Fræðslumiðstöðvar og er miðstöðin þakklát fyrir þann velvilja og stuðning sem hún hefur mætt í samfélaginu í gegnum tíðina.

Með virku samstarfi tekur námsframboðið mið af þörfum samfélagsins hverju sinni. Saman getum við lagt grunn að sí- og endurmenntun á Vestfjörðum, aukið menntun og lífsgæði íbúa svæðisins og eflt þannig einstaklinga og atvinnulíf.

Sædís María Jónatansdóttir, forstöðumaður Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða

Deila