Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Fréttir af Fræðslumiðstöð - annáll 2007

Annáll 2007.
Byggður á bráðabirgðaniðurstöðum.

27.12.2007
María RagnarsdóttirStarfsemi Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða óx mikið á árinu 2007. Haldin voru 126 námskeið samanborðið við 90 árið 2006. Fjöldi þátttakenda var 1.352 (952) og hafa aldrei áður farið yfir 1.000. Konur voru tæp 80% og karlar rúm 20%. Hafa karlar aldrei verið hlutfallslega færri. Stafar það m.a. af því að íslenska fyrir útlendinga var heldur minni en stundum áður.
Kennslustundir voru um 3.070, sem samsvara rúmum 3 stöðugildum.
Nemendastundir (margfeldi af kennslustundafjölda námskeiðs og fjölda þátttakenda) voru 32.450 (22.585) og hafa aldrei áður farið yfir 30 þúsund.

Dreifing þátttakenda eftir póstnúmerum er jafnari en áður. Einkum koma Strandirnar sterkt inn og eru þátttakendur flestir í póstnúmeri 510 (Hólmavík). Er það einkum að þakka öflugum tengilið á Ströndum.

Hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða hafa aðeins verið 2 starfsmenn í föstu starfi. Að auki eru 5 manneskjur verkefnaráðnar og að minnsta kosti 70 manns komu að kennslu. Þá er símsvörun, móttaka og margs konar umsýsla sameiginleg með fleiri stofnunum að Suðurgötu 12/Árnagötu 2-4 á Ísafirði.

Samtals má gera ráð fyrir að hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða hafi verið um 7,5 til 8 stöðugildi á árinu 2007.

Nú hefur Fræðslumiðstöðin ráðið Maríu Ragnarsdóttur B.Ed. í fullt starf á Patreksfirði. María er kennari við Patreksskóla og kemur til starfa hjá Fræðslumiðstöðinni eftir því sem hún losnar úr kennslu. Sérstakt framlag til þriggja ára, sem er hluti af mótvægisaðgerðum, gerir Fræðslumiðstöðinni kleift að ráða starfsmann Á Patreksfirði.

Á Hólmavík er Kristín Sigurrós Einarsdóttir tengiliður Fræðslumiðstöðvarinnar og Ingvar Samúelsson á Reykhólum. Með ráðningu tengiliðanna og starfsmanns á Patreksfirði vill Fræðslumiðstöðin þjóna íbúum viðkomandi staða sem best.

Fræðslumiðstöð Vestfjarða fékk 11 milljónir kona styrk frá menntamálaráðaneytinu á árinu 2007. Var það sama upphæð og aðrar símenntunarmiðstöðvar á landsbyggðinni. Á næsta ári á hver miðstöð að fá 15 mkr. Að auki fær Fræðslumiðstöðin 5 mkr. vegna starfsmannsins á Patreksfirði. Fullorðinsfræðslan er þannig sífellt að vinna sér sess og virðingu.

Þá fær Fræðslumiðstöðin greitt með ýmsum verkefnum sem hún tekur að sér svo sem náms- og starfsráðgjöf og íslenskukennslu. Aðrar tekjur Fræðslumiðstöðvarinnar koma af útseldri starfsemi, einkum námskeiðum.

Velta ársins 2007 mun fara eitthvað yfir 50 milljónir króna, en var um 30 mkr árið 2006.

Fræðslumiðstöð Vestfjarða var því alls ekki lögð niður við stofnun Háskólasetursins eins og mjög margir virðast halda. Þvert á móti starfa báðar þessar stofnanir af krafti. Þær starfa þó náið saman og samnýta tæki og tól og að sumu leiti mannskap. Skipting á milli stofnananna er þannig að Háskólasetrið sér um allt sem gefur einingar við háskóla, en Fræðslumiðstöðin um það sem ekki gefur einingar. Um einingabært nám á framhaldsskólastigi sér Menntaskólinn um að mestu.
Að Fræðslumiðstöðinni standa flestar stofnanir og samtök sem starfa á Fjórðungsvísu. Vinna þær allar mjög vel saman að málefnum miðstöðvarinnar. Er óhætt að fullyrða að einn megin styrkur miðstöðvarinnar sé hina góða samstaða sem um hana ríkir.
Deila