Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Freyja Margrét fyrirmynd í námi fullorðinna

Föstudaginn 2. desember sl. hélt Fræðslumiðstöð Atvinnulífsins (FA) og Norrænt tengslanet um nám fullorðinna (NVL) ráðstefnu undir yfirskriftinni Ný viðhorf til náms. Ráðstefnan var haldin í tengslum við ársfund FA og fór fram á Hótel Reykjavík Natura. Auk athyglisverðra fyrirlestra á ráðstefnunni var tilkynnt um val á tveimur fyrirmyndum í námi fullorðinna, svo sem venja hefur verið á ráðstefnum þessum undanfarin ár.

Að þessu sinni var Ísafirðingurinn Freyja Margrét Bjarnadóttir fyrir valinu sem önnur fyrirmyndin í námi fullorðinna. Hinn var Jón Heiðar Erlendsson skurðgröfumaður frá Suðurnesjum, sem nú er að hefja nám í verkfræði við Háskólann í Reykjavík.

Freyja hóf nám í öldungadeild við Menntaskólann á Ísafirði fyrir margt löngu, en hætti þar námi til að sinna búi og börnum. Hún fór á námskeið hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða veturinn 2001 og í framhaldi af því með hópi kvenna í svokallað starfsnám stuðningsfulltrúa sem fjarkennt var hjá Fræðslumiðstöðinni af Fræðslusetrinu Starfsmennt.

Að loknu stuðningsfulltrúanáminu bauð Menntaskólinn á Ísafirði hópnum uppá tveggja ára nám á svokallaðri félagsliðabrú, þar sem Freyja lauk námi félagsliða. Þá var Freyja komin á bragðið og bætti við sig sjúkraliðanámi og síðan stúdentsprófi sem hún lauk vorið 2010 með glæsilegum árangri. Nú er hún innrituð í Þjóðfræði við Háskóla Íslands þar sem hún hefur nám í upphafi árs 2012.
Freyja hefur sýnt mikið áræði og dugnað í námi og er því vel að viðurkenningunni komin, sem fyrirmynd í námi fullorðinna. Freyja er gift Ara Sigurjónssyni og eiga þau 2 börn.

Námsferill Freyju getur verið öðrum fyrirmynd ekki síður en árangurinn. Eftir langt hlé hóf hún nám hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða, þar sem aðstæður allar eru miðaða við fullorðið fólk. Það leiddi hana svo inn í Menntaskólann þar sem hún var með sínum hópi í félagsliðanáminu. Eftir það hellti hún sér í námi með unglingunum í Menntaskólanum og er nú að byrja á háskóla. Þessi ferill sýnir á einkar glöggan hátt hvernig samstarf þessara tveggja menntastofnana, Fræðslumiðstöðvarinnar og Menntaskólans, getur best orðið.

Við hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða erum stolt af okkar litla framlagi í þessum menntaferli og óskum Freyju Margréti innilega til hamingju með viðurkenninguna.
image

Deila