Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Frístundafiskmenn prófaðir

Síðastliðið hálft annað ár hefur Fræðslumiðstöðin leitt þróunarverkefni sem felur í sér að útbúa námsefni fyrir erlenda frístundafiskimenn, setja það á vefinn og annast próf. Verkefnið er unnið í samstarfi við Siglingastofnun og fyrirtæki á Vestfjörðum sem bjóða upp á frístundaveiðar.

Þeir ferðamenn sem ekki hafa tilskilin réttindi til þess að sigla frístundabátum geta nú undirbúið sig áður en þeir koma til landsins með því að skoða vefinn plato.is. Þar er að finna námsefni og er einnig hægt að taka æfingapróf. Þegar komið er til landsins er kunnátta ferðamannanna prófuð áður en þeir fá réttindi til þess að sigla bátunum. Vefurinn er á þremur tungumálum; íslensku, ensku og þýsku og nú stendur til að hollenska bætist við fljótlega.

Það er Guðbjörn Páll Sölvason skipstjóri sem hefur haft veg og vanda af þessu verkefni fyrir hönd Fræðslumiðstöðvarinnar. Hann hefur séð um að taka saman námsefnið og sér jafnframt um að prófa en Siglingastofnun hefur veitt honum réttindi prófdómara í skemmtibátaprófum. Þess má geta að Guðbjörn Páll hefur jafnframt séð um kennslu í smáskipanámi sem Fræðslumiðstöðin hefur boðið upp á í vetur, bæði á Ísafirði og Hólmavík.

Fyrstu prófin voru í lok apríl og þegar þetta er skrifað, 26. júní, þá hafa 65 gengist undir próf á Suðureyri, Flateyri, Súðavík, Bolungarvík og Tálknafirði.

Frístundafiskimenn
Á hverju ári kemur þónokkur fjöldi frístundafiskimanna til Vestfjarða.
Deila