Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Grunnnám fyrir skólaliða

Mánudaginn 28. september var haldinn kynningarfundur til að kynna námsskrána Grunnnám fyrir skólaliða. Mættu 7 manns og var greinilegur áhugi. Ákveðið var að fara af stað með námið sem fyrst og er áætlað að það fari af stað 12. október ef næg þátttaka næst fyrir þann tíma.

Námið er einkum ætlað þeim sem hafa umsjón með grunnskólabörnum í frímínútum, í útivist og á matmálstímum auk þess að ræsta skólahúsnæði og sinna skyldum verkefnum á því sviði. Námið getur einnig nýst þeim sem aðstoða kennara þegar þeir sinna nemendum sem þurfa sérstaka aðstoð svo og þeim sem líta eftir börnum á leikskólum.
Markmiðið með náminu er að efla aðstoðarfólk leik- og grunnskóla í starfi með því að efla þeim sjálfstraust og með því að styrkja faglega hæfni þeirra í starfi.

Námið er 70 kennslustundir og verður kennt þrisvar sinnum í viku á mánudögum, þriðjudögum og miðvikudögum frá kl. 16.30 - 18.30 með einhverjum undantekningum. Engin grunnskilyrði eru gerð fyrir þátttöku önnur en þau að þátttakendur séu orðnir 18 ára. Engar kröfur eru gerðar til skólagöngu áður en nám hefst. Námsmenn gangast ekki undir formleg próf. Námsmenn eru fullorðið fólk, á misjöfnum aldri, með mislangan starfsaldur, í ólíkum störfum. Reynsla þeirra er því afar misjöfn og misjafnt hve langt er um liðið frá því þeir voru síðast í skóla.

Lágmarksþátttaka til að fara af stað með námsskrána eru 10 þátttakendur og eru allir þeir sem hafa umsjón með börnum í leik- og grunnskólum hvattir til að skrá sig hér á vefnum.
Deila