Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Heimsókn frá Keili - kynning á Menntastoðum og Háskólabrú.

1.11.2012
image
Soffía Waag Árnadóttir forstöðukona Háskólabrúar Keilis og Inga Sveinbjörg Ásmundsdóttir verkefnastjóri Háskólabrúar, verða á Ísafirði mánudaginn 5. nóvember, þar sem þeir munu kynna undirbúning háskólanáms; Menntastoðir og Háskólabrú, sem og aðra starfsemi Keilis.

Í hádeginu 5. nóvember verða þær með opinn fund á Hótel Ísafirði, þar sem boðin verður súpa og brauð, um leið og starfsemi Keilis verður kynnt.

Þeir sem vilja hitta þær Soffíu og Ingu Sveinbjörgu, til að fræðast um starfsemi Keilis, geta skráð sig í viðtal við þær hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða í síma 456 5025 eða með tölvupósti á netfangið smari@frmst.is

Í Háskólabrú Keilis fer fram undirbúningur fyrir háskólanám. Námið tekur eitt ár og veitir rétt til inngöngu í háskóla. Inntökuskilyrði á Háskólabrú eru að viðkomandi hafi hið minnsta 70 einingar í framhaldsskóla eða hafi lokið sérstöku undirbúningsnámi, sem kallast Menntastoðir. Námsskrá Háskólabrúar hefur verið sniðin að óskum deilda Háskóla Íslands.

Nám á Háskólabrú er bæði hægt að taka í fjarnámi er hefst í janúar ár hvert og staðnámi er hefst í ágúst ár hvert. Útskrifaðir nemendur af Háskólabrú stunda nú nám í háskólum hérlendis og erlendis.

Manntastoðir eru 650 kennslustunda nám, sem tekur frá 6 mánuðum upp í eitt ár, eftir því hvernig það er skipulagt. Það er í boði hjá símenntunarmiðstöðvunum, meðal annars hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða.

Auk Háskólabrúar rekur Keilir svokallaða Íþróttaakademíu, sem er á sviði heilsu, heilbrigðis, íþrótta- og uppeldisfræða og býður meðal annars ÍAK einkaþjálfaranám. Þá býður Keilir fjölfaglegt og hagnýtt tæknifræðinám á háskólastigi og svokallaða Flugakademíu, þar sem stefnt er að því að hafa allt flugtengt nám undir einum hatti og að því verði skipaður verðugur sess í skólakerfinu.
Deila