Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Landsmennt veitir fulla fjármögnun námskeiða

Nú er lag fyrir starfsfólk og atvinnurekendur að nýta sér tækifæri til endur- og símenntunar. Það er ánægjulegt að segja frá því að fram til 31. ágúst n.k. getur það launafólk sem á aðild að fræðslusjóðunum Landsmennt, Sveitamennt og Starfsmennt í gegnum VerkVest og Verkalýðs- og sjómannafélagi Bolungarvíkur sótt fjarkennd námskeið sér að kostnaðarlausu. Einnig hafa reglur varðandi námskeið sem ekki eru fjarkennd verið rýmkaðar og gildir það líka til 31. ágúst. Þetta kom fram í fréttatilkynningu frá Landsmennt sem hér fer á eftir (en það sama gildir um Sveitamennt og Ríkismennt).

Landsmennt fræðslusjóður Samtaka atvinnulífsins og verkafólks á landsbyggðinni býður einstaklingum og fyrirtækum að sækja námskeið þeim að kostnaðarlausu.

Í ljósi aðstæðna í íslensku samfélagi hefur stjórn Landsmenntar fræðslusjóðs ákveðið bjóða einstaklingum og fyrirtækjum uppá þann valkost að sækja námskeið á netinu eða í fjarkennslu þeim að kostnaðarlausu.

Einnig mun sjóðurinn rýmka úthlutunarreglur sjóðsins sem taka til námskeiða sem ekki eru rafræn eða í fjarkennslu.  Stofnað verður til átaks í stafrænni/rafrænni fræðslu innan atvinnulífsins í samstarfi við fræðsluaðila og fyrirtæki.

Átakið  gildir frá  15.mars til og með 31.ágúst 2020 og gildir gagnvart námi/námskeiðum sem haldin eru innan þessa sama tímaramma. Þessi tímarammi verður endurskoðaður ef tilefni verður til.

Nánari útfærsla á átaksverkefninu:  Gerðir verða samningar við fræðsluaðila sem bjóða upp á vefnám/fjarnám þar sem fyrirtækjum og einstaklingum er boðin þátttaka í námi/námskeiðum þeim að kostnaðarlausu. Þessir samningar gilda einnig tímabundið og gagnvart því námi/námskeiðum sem fræðsluaðilar bjóða upp á innan þessa tímaramma það er frá 15. mars til og með 31. ágúst 2020

Um leið og Landsmennt hvetur stjórnendur fyrirtækja til þess að sinna sí-og endurmenntun starfsmanna sinna, vill stjórnin koma því á framfæri að tekið verði á móti öllum góðum hugmyndum að fræðslu sem kynnu að nýtast og falla vel að úthlutunarreglum sjóðsins.

Breytingar á úthlutunarreglum eru eftirfarandi:

  • Endurgreiðslur til fyrirtækja vegna kostnaðar við námskeiðahald, miðað við núverandi reglur, verði hækkaðar úr allt að 75% í allt að 90% af styrkhæfum heildarkostnaði. Gildistími verði frá 15. mars til og með 31. ágúst 2020.
  • Hámarksupphæð einstaklingsstyrkja verður áfram kr. 130.000 á ári miðað við núverandi reglur. Hlutfalli endurgreiðslu verði hins vegar breytt og verði 90% í stað 75% af kostnaði við námið. Gildistími verði frá 15. mars til og með 31. ágúst 2020.
  • Tómstundstyrkir sem nú eru 75% en að hámarki kr. 30.000 á ári verði í sama hámarki og hefðbundnir styrkir, það er kr. 130.000 á ári. Hlutfall endurgreiðslunnar verði sömuleiðis 90% af viðurkenndum kostnaði við námið. Gildistími verði frá 15. mars  til og með 31. ágúst 2020.

Nánari upplýsingar veitir Kristín Njálsdóttir, framkvæmdastjóri Landsmenntar í síma 863 6480 eða á tölvupósti, kristin@landsmennt.is

Deila