Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Lausnamiðuð nálgun - fjarnámskeið frá EHÍ

Eins og undanfarin misseri mun Fræðslumiðstöðin bjóða upp á námskeið frá Endurmenntun Háskóla Íslands í gegnum fjarfundabúnað. Fimmtudaginn 14. janúar er fyrsta námskeiðið ráðgert en það er tveggja daga námskeið um lausnamiðaða nálgun. Námskeiðið er ætlað öllum sem vilja horfa á lausnirnar frekar en vandamálin. Markmið og tilgangur þess er að kynna þátttakendum árangursríka aðferð og ýmsar leiðir sem geta nýst fólki við að ná markmiðum sínum í lífi og starfi.

Lausnamiðuð nálgun er áhrifamikil, gagnleg og margreynd aðferð til jákvæðra breytinga hjá einstaklingum, fjölskyldum, hópum, stofnunum og fyrirtækjum. Með þessari nálgun er lögð áhersla á að fólk einblíni ekki á vandamálin og orsök þeirra við úrlausn mála heldur sjái það sem er að virka. Sjónarhornið er lausnin (ekki vandamálið), framtíðin (ekki fortíðin) og hvað gengur vel (ekki illa) en það leiðir til jákvæðs og raunsæs árangurs. Með sjónarhornið á lausnir hafnar þessi hugmyndafræði hefðbundnum hugmyndum um að besta leiðin til árangurs sé að finna orsök vanda, með því að greina hann, tala um hann og álykta út frá honum.

Námskeiðið stendur frá 8:30-14:00 fimmtudaginn 14. janúar og föstudaginn 15. janúar.

Kennari er Helga Þórðardóttir, félagsráðgjafi og fjölskylduþerapisti.

Verð er 23.900 kr.
Deila