Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Mikill áhugi á viðbótarnámi í vélstjórn

Nú er í fyrsta skipti boðið upp á viðbótarnám í vélstjórn hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða í samvinnu við Menntaskólann á Ísafirði. Námið er ætlað þeim sem lokið hafa vélgæslunámi en vilja auka réttindi sín.

Miðvikudaginn 9. janúar s.l. var haldinn kynningarfundur á náminu og er ljóst að mikill áhugi er fyrir þátttöku. Á fundinum var meðal annars farið yfir fyrirkomulag námsins en það verður kennt með svokölluðu dreifnámi, þannig að þátttakendur hitta kennara í ákveðnum námslotum og vinna verkefni á milli. Námsloturnar verða á helgum. Á vorönn 2013 verða kenndir tveir áfangar, KÆL 122 og VST 204 en á haustönn 2013 verður kenndur áfanginn RAF 103.

Námið verður kennt samkvæmt heimild í 12. grein reglugerðar um skipstjórnar- og vélstjórnarréttindi á fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum, nr. 175/2008, og breytingu á henni nr. 886/2010. Í reglugerðinni segir:
Sá sem lokið hefur vélgæslunámi samkvæmt reglugerð settri af menntamálaráðuneyti eða sveinsprófi í vélvirkjun, hefur öðlast rétt til að vera vélavörður á skipum 12 metrar og styttri að skráningarlengd með vélarafl 750 kW eða minna (Skírteini: Smáskipavélavörður (SSV)).

Að loknu viðbótarnámi (RAF103 og tveir af eftirfarandi þremur áföngum; RAF253, VST204 og KÆL122, Véltækniskólanum er heimilt að meta sambærilega áfanga jafngilda) sem skilgreint er í námskrá öðlast hann rétt til að vera vélavörður á skipi með 750 kW vél og minni (Skírteini: Vélavörður (VV))og yfirvélstjóri á skipi með 750 kW vél og minni og 24 metrar og styttri að skráningarlengd að loknum 4ra mánaða siglingatíma sem vélavörður (Skírteini: Vélavörður (VVY)).

Námið verður kennt í verknámshúsi Menntaskólans og eru kennarar þeir Guðmundur Einarsson og Friðrik Hagalín Smárason.
Deila